146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipulagslög og byggingarreglugerð.

368. mál
[18:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Hæstv. ráðherra félags- og jafnréttismála, Þorsteinn Víglundsson, var áður starfandi á vettvangi Samtaka atvinnulífsins, en þau samtök og þá kannski sérstaklega Samtök iðnaðarins, hafa verið óþreytandi við að vísa á skipulagslög og byggingarreglugerðir þegar rætt er um húsnæðisvandann. Ég vonaði satt að segja að hæstv. ráðherra hefði tekið þessa áróðurslínu til endurskoðunar þegar hann hafði sest í sæti ráðherra. Þess vegna kom það mér óþægilega á óvart þegar hann tók upp þetta stef, það þrástef Samtaka iðnaðarins og atvinnulífsins að regluverkið væri vandamálið þegar um væri að ræða víðtækan húsnæðisvanda og allt of hátt húsnæðisverð eða vandkvæði í þeim efnum á Íslandi.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma og í svari hæstv. ráðherra 27. mars sl. Það svar var tilefni þeirrar fyrirspurnar sem hér er til umfjöllunar, en spurning mín til ráðherrans er þessi: Hvaða breytinga telur ráðherra þörf á skipulagslögum og byggingarreglugerð í því skyni að koma til móts við víðtækan húsnæðisvanda, samanber svar ráðherra í óundirbúinni fyrirspurn á þingfundi 27. mars?

Nú er það svo, hæstv. ráðherra til upplýsingar, að ný byggingarreglugerð tók gildi á árinu 2012. Sú byggingarreglugerð hefur tekið þó nokkrum breytingum síðan, m.a. fyrst kröfur um aukna orkunýtingu sem dregnar voru til baka og gerðar sveigjanlegri og svo voru ýmsar fleiri breytingar gerðar, en sem betur fer þá tókst að standa af sér atlögu stjórnvalda, ítrekaðar atlögur, sem var í því skyni að draga úr kröfum um aðgengi fyrir alla.

Mig langar að segja að það liggur algjörlega fyrir að byggingarkostnaður á föstu verðlagi hefur ekki hækkað neitt með nýrri byggingarreglugerð. Hann er um 300 þús. kr. á fermetrann, hefur verið það frá 2012, frá ári til árs, og hefur ekki tekið neinum breytingum þrátt fyrir breytta byggingarreglugerð. Hins vegar hefur fasteignaverðið hækkað ítrekað. Þau flóknu vísindi sem stundum eru kölluð hagfræði geta væntanlega skýrt það.

Ég vil biðja hæstv. ráðherra að skýra það út fyrir mér með hvaða hætti hann telur að vandinn liggi í skipulagslögum og byggingarreglugerð og biðja hann að styðja það með rökum. Það er óásættanlegt að ráðherra þessa málaflokks, félagsmálanna, (Forseti hringir.) haldi áfram að beita fyrir sig slagorðum (Forseti hringir.) Samtaka iðnaðarins.