146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipulagslög og byggingarreglugerð.

368. mál
[19:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Í svari hans kemur fyrst og fremst fram áhugi á því að hraða undirbúningstíma framkvæmda, eins og ég skil hann. Þá væri áhugavert að heyra að hvaða leyti við erum að tala beinlínis um framkvæmd laganna sjálfra og að hve miklu leyti við erum að tala um breytingar á frestum, sem eru náttúrlega töluverðir í því langa ferli sem eitt skipulagsferli er, ef svo má að orði komast. Í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur kom fram að að sumu leyti er snúnara að þétta byggð en að byggja á óbyggðum svæðum, ekki síst vegna þeirra hagsmuna sem þar eru fyrir. En um leið þjónar það ákveðnum markmiðum, ekki síst loftslagsmarkmiðum og því um líku, þannig að það ríður á að vega og meta þá þætti.

Mér finnst afar mikilvægt að halda því haga að byggingarreglugerð, þó að hún sé sennilega sú reglugerð í íslensku reglugerðarfargani sem tekur hvað mest pláss, bæði flestar greinar og flestar blaðsíður o.s.frv., er fyrst og fremst sett fram til þess að stuðla að gæðum. Hjá venjulegu alþýðufólki er um að ræða ævisparnaðinn í íbúðarhúsnæðinu. Við þurfum því að gæta mjög vel að því að ganga ekki á þær kröfur, af því að þær eru í raun kröfur fyrir allan almenning sem almannavaldið er að setja. Á sama tíma talaði löggjafinn mjög skýrt um það að við mættum ekki hverfa frá kröfunni um algilda hönnun og aðgengi fyrir alla.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra félagsmála og þar með fötlunarmála (Forseti hringir.) standi með mér í þeim efnum. (Forseti hringir.) En ég lýsi eftir því að hann tali skýrar varðandi sveigjanlegri rýmisskilgreiningar, af því að þær hafa verið (Forseti hringir.) sveigðar töluvert til með þeim breytingum sem hafa verið gerðar frá 2012.