146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipulagslög og byggingarreglugerð.

368. mál
[19:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég legg auðvitað áherslu á þörfina sem hefur verið nefnd varðandi byggingarreglugerð og skipulagslöggjöf, sem að vísu er ekki undir mínu ráðuneyti og ég ætla heldur ekki að svara hér fyrir hópinn sem kemur að þeirri vinnu. Þetta er hópur fjögurra ráðuneyta ásamt sveitarfélögum sem eru einmitt að gera sameiginlegar tillögur um hvaða breytingar þarna væri hægt að ráðast í, en meginmarkmið þeirra hefur verið þetta; hvernig getum við unnið gegn þeim mikla húsnæðisvanda og þeim mikla skorti á húsnæði sem nú er, og þá með ungt fólk og fyrstu kaup eða leigu sérstaklega að leiðarljósi?

Þetta er ágæt ábending hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur og er í vinnslu innan míns ráðuneytis hvað varðar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og hvernig megi skerpa þar á kvöðum og auðvitað það sem öllu máli skiptir, að tryggja nægt framboð og nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði.

Hvað varðar skipulagslöggjöfina sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom inn á, þar eru fjölmargir þættir sem hægt er að horfa til og ég veit að hópurinn mun án efa skoða. Það eru tímafrestir til að kæra, sér í lagi kannski þegar kemur að einfaldari breytingum, hvenær er um meiri háttar framkvæmd að ræða í nýbyggingum, hvenær eru minni háttar breytingar sem væri hægt að liðka fyrir, að kljúfa einingar upp í fleiri fastanúmer, mögulegar smávægilegar viðbyggingar og annað þess háttar, sem væri annars vegar til að hraða ferli fyrir viðkomandi framkvæmdir, en ekki síður til að draga úr því mikla álagi sem er á kerfinu nú þegar og hindrar framgang allra verkefna, stórra sem smárra. Það er nokkuð sem t.d. Norðmenn hafa skoðað.

En ég ítreka enn og aftur að ég held að við séum öll sammála um að það verður alltaf að hafa gæði að leiðarljósi líka, en auðvitað verður að horfa til kostnaðar af reglugerðum, en um aðgengi allra eða algilda hönnun held ég við séum öll hjartanlega sammála og stendur ekki til að (Forseti hringir.) ganga gegn þeim.