146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

leit að týndum börnum.

468. mál
[19:19]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa góðu og mikilvægu umræðu. Það skiptir gríðarmiklu máli að þetta úrræði verði áfram fastur liður í starfsemi lögreglunnar, og vonandi um allt land, ekki einungis hér á höfuðborgarsvæðinu, þó svo að eðli málsins samkvæmt sé umfangið auðvitað mest hér. Reynslan af þessu hefur sýnt og raunar reynslan af öðrum samstarfsverkefnum lögreglu og barnaverndaryfirvalda, til dæmis þegar kemur að heimilisofbeldi, hversu mikilvægt er að þetta samstarf sé öflugt og gott öllum stundum og hversu mikill ávinningur getur orðið af slíku samstarfi. Það hefur sýnt sig vel í báðum þessum tilvikum, varðandi leit að týndum börnum en ekki síður þegar kemur að hagsmunum barnanna í heimilisofbeldi. Þetta samstarf getur skilað gríðarlega miklum og mikilvægum ávinningi.

Hv. þm. Eygló Harðardóttur spyr út í þær fjárhæðir sem varið var til þessa verkefnis á árunum 2015–2016. Það er sjálfsögðu til skoðunar hvernig við getum stutt betur við þessa samstarfsfleti fram á veginn. Auðvitað er eðlilegt að þetta verði með tíð og tíma fastur hluti af starfsemi lögreglunnar og þar með fjármagnað af föstum framlögum til embættisins. En við eigum, sér í lagi í tengslum við fyrirhugaða aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn ofbeldi, að horfa til þess hvernig hægt er að draga lærdóm af þessum tveimur verkefnum sem hér hafa verið nefnd og hvernig við getum þróað t.d. samstarf lögreglunnar og barnaverndaryfirvalda og annarra hagsmunaaðila enn frekar.

En ég þakka enn og aftur ákaflega áhugaverða og gagnlega umræðu.