146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

ofbeldi gegn fötluðum börnum.

470. mál
[19:40]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrirspurnina. Þetta er að snúast upp í ágætissamtal á milli okkar hv. þingmanns í dag með þriðju fyrirspurninni í röð en allar um mjög mikilvæg málefni.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefni að erlendar rannsóknir sýna fram á stóraukna tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum börnum og er engin ástæða til að ætla annað en að það sé með sama hætti hér þó svo að við sjáum ekki tilkynningar í þeim takti. Það er verið að vinna mjög mikið starf þessar vikurnar og mánuðina í endurskoðun á atriðum laga um málefni fatlaðra. Það má nefna þau málefni sem eru til meðhöndlunar hjá þinginu þar sem lögð eru drög að innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í lagaumgjörð og framkvæmd, frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með mikla stuðningsþörf, sem ég hef þegar mælt fyrir, frumvarp til laga um félagsþjónustu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra. Það má líka nefna að við höfum þegar tekið ákvörðun, og það endurspeglast í nýrri ríkisfjármálaáætlun, um að veita aukið fjármagn til réttindagæslu fyrir fatlað fólk, úrræði sem hefur reynst vel en vantar að efla umtalsvert, einkum í tengslum við málefni sem þessi þar sem grunur leikur á að brotið sé á réttindum fatlaðs fólks, sér í lagi barna, hvað þá þegar um mögulegt ofbeldi er að ræða. Því til viðbótar má nefna áætlun sem hafin er vinna við undirbúning á varðandi nýja áætlun í barnaverndarmálum sem vonandi kemur fyrir þingið á næsta starfsvetri. Síðast en ekki síst er nýundirrituð aðgerðaáætlun gegn ofbeldi sem ég undirritaði nýlega ásamt þremur öðrum ráðherrum, þ.e. dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra.

Í þessum sem öðrum eftirlitsmálum þegar kemur að eftirlitsskyldu ráðuneytisins skiptir gríðarlega miklu máli að efla þann þátt í starfsemi þess. Þar vísa ég aftur til áforma um sérstaka eftirlitsstofnun innan ráðuneytisins til að greina betur á milli hlutverks framkvæmdarvaldsins og eftirlits með ákvörðunum sem teknar eru innan ráðuneytisins sjálfs og ekki síður á vettvangi sveitarfélaga og annarra undirstofnana ráðuneytisins. Undirbúningur að stofnun þessarar ráðuneytisstofnunar er vel á veg komin og vonast ég til að hægt verði að ýta henni úr vör núna í haust.

Þetta er, enn og aftur, málaflokkur sem við þurfum að taka mun fastari tökum en við höfum gert, sér í lagi í gegnum barnaverndaráætlanir okkar, þau úrræði sem finna má í löggjöfinni um fatlaða einstaklinga. Þó svo að þessar áherslur endurspeglist verulega í nýrri barnaverndaráætlun tek ég undir það með hv. þingmanni og hefði engar athugasemdir við það að velferðarnefnd tæki núverandi fyrirliggjandi barnaverndaráætlun til skoðunar í því ljósi og skoðaði hvernig mætti styrkja enn frekar úrræði þegar kemur að mögulegu ofbeldi gegn fötluðum börnum. Þetta er háalvarlegur hlutur. Þetta er okkar viðkvæmasti hópur, hópur sem okkur hlýtur að bera rík skylda til að gæta hagsmuna fyrir í alla staði, sér í lagi þegar kemur að svo grafalvarlegum málum sem þessum.

Ég þakka enn og aftur fyrirspurnina.