146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

ofbeldi gegn fötluðum börnum.

470. mál
[19:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svörin og fyrir umræðuna um þetta mál, ofbeldi gegn fötluðum börnum. Það er að mínu mati einkar mikilvægt að við ræðum þetta hér. Við erum tiltölulega nýlega farin að gera okkur grein fyrir því í hversu mikilli áhættu börn með fötlun og fatlað fólk er gagnvart ofbeldi. Ég vona svo sannarlega að nefndarmenn velferðarnefndar hugi að því hvort hægt sé að bæta aðgerðalið inn í framkvæmdaáætlunina, ekki bíða eftir því að við fáum nýjan lið inn heldur bæta honum strax við. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er sjálf farin að fjármagna leit að týndum börnum, eins og við ræddum áðan. Það þýðir að ráðherrann hefur væntanlega aðeins svigrúm innan síns ramma og gæti hugsanlega aukið þjónustuna enn frekar til að vinna gegn ofbeldi gegn fötluðum börnum.

Ég vil minna sérstaklega á tillögu samstarfsnefndar um orlofsmál fatlaðs fólks sem ætti að leiða af sér skýrari verklagsreglur fyrir þjónustuveitendur. Er eitthvað þar sem væri hugsanlega hægt að fara í?

Við höfum verið að gera ýmislegt. Við höfum verið að reyna að efla þjónustu Barnahúss. Talað er um að breyta þurfi lagaumhverfinu þar og styrkja lagastoðina undir Barnahúsi. Þar vonast ég svo sannarlega til að verði sérstaklega nefnd þjónusta við fötluð börn.

Það er líka jákvætt að ætlunin sé að efla enn frekar réttindagæslumennina. Ef ráðherrann er að leita eftir frekari verkefnum þá hefur lögreglan verið að breyta verklagi sínu þegar kemur að því að rannsaka ofbeldisbrot gagnvart fötluðu fólki. (Forseti hringir.) Þar held ég að veiti svo sannarlega ekki af auknu fjármagni til þess (Forseti hringir.) að hægt sé að sinna þeim verkefnum betur. Ég vil (Forseti hringir.) hvetja ráðherrann eindregið til að skoða þann möguleika.