146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

rýmkun reglna um hollustuhætti og matvæli.

443. mál
[20:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að þótt ég sé það gamaldags að vera úr sveit og sjá dýrin fyrir mér þar á þann máta sem var rakið, sem er alveg rétt, þá skil ég samt vel þörf fólks og mikilvægi þess að fá að umgangast dýrin sín. Ég skil það mjög vel út af því að ég þekki það vel sjálf. Ef fólk býr í borg þarf það að geta leitt hundinn sinn þangað sem það sjálft er að fara. Við viljum stuðla að bíllausum lífsstíl og ýmsu og þá þarf það að vera hægt. Fyrir mörgum er væntumþykja þeirra til dýranna á pari við væntumþykju fólks til barnanna sinna. Þetta getur skipt fólk verulegu máli og við þurfum að taka tillit til þess.

En það eru skiptar skoðanir. Einhverjum gæti jafnvel fundist og finnst öryggi sínu ógnað, eins og fyrirspyrjandi rakti í byrjun máls síns, en þá er auðvitað langbest að vinna með það og sýna tillit. En tillitið má líka sýna á hinn veginn þegar við hin, sem erum vön því að dýr séu bara í sveit, gefum því rými að þau geti líka verið partur af lífi borgaranna á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Ég held að þetta mál sé allt á réttri leið en það þarf auðvitað umræðu. Það þarf alveg að ræða ofnæmi og almenningssamgöngur og slíkt, það er bara eðlilegt. En nákvæmlega þá umræðu erum við að taka.