146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég færi hv. þm. Einari Brynjólfssyni hamingjuóskir vegna þeirrar upphefðar sem hann hefur hlotið innan þingflokks Pírata. Ég hef unnið með hv. þingmanni í tveim nefndum og þar er á ferðinni vandaður maður og áreiðanlegur.

Í gær gerði ég mætingu Pírata á nefndafundi að umræðuefni í pontu, ég tek fram að ég ætla ekki að gera það að mínu þingstarfi að vera stimpilklukka fyrir aðra þingflokka. Ég hef annan metnað fyrir minn þingferil. En ég neita því ekki að mér hefur stundum sárnað þessi umræða þegar því eru gerðir skórnir að stjórnarliðar mæti illa eða taki illa þátt í umræðum í þinginu, sérstaklega þegar maður lendir síðan í því, eins og í umræðu um fjármálaáætlun, að sitja undir slíkum ásökunum en tala síðan fyrir næstum því tómum sal undir lok kvölds.

Hvað þetta varðar hafa Píratar ástundað nokkuð hefðbundna stjórnarandstöðu og ég geri ekki athugasemdir við það því að ég hef kannski verið nokkuð hefðbundinn stjórnarliði, en ég minni á að í mörgum mála í þinginu eiga Píratar sér bandamenn, t.d. í málum sem koma að netfrelsi, vímuefnamálum og persónuréttindum að mörgu leyti. Ég er einn þeirra bandamanna þannig að ég mæli með því við Pírata, af því að það hefur verið hugmynd um að kalla þessa hreyfingu, Píratahreyfingu, á heimsvísu vinstri frjálshyggju, að þeir taki upp nýtt slagorð í þinginu: Minni fundarstjórn forseta og meiri frjálshyggju. Þá geta þeir treyst á að ég verði með þeim í þeirri (Gripið fram í.) vegferð. — Kom þú bara yfir, kom þú bara yfir, Birgitta.