146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hérna um snjóflóðavarnir. Þegar metin er hætta á snjóflóðum í byggð eru aðeins tvær leiðir í boði á Íslandi, annars vegar uppkaup á eignum og hins vegar snjóflóðavarnagarðar. Reglugerðir virðast ekki leyfa aðrar aðferðir.

Snjóflóðavarnir á Íslandi hófust fyrst að einhverju marki fyrir rúmum tveimur áratugum og undarlegt verður að teljast að ekki skuli vera horft til þeirra landa þar sem snjóflóðavarnir eiga sér langa sögu, eins og t.d. í svissnesku ölpunum en þar hafa snjóflóðarannsóknir verið stundaðar í yfir 85 ár. Algengustu snjóflóðavarnavirki í Sviss eru í formi upptakastoðvirkja. Upptakastoðvirki eru stálgrindur til að binda snjóþekjuna og koma í veg fyrir að snjóflóð fari af stað ofan byggðarinnar. Slík stoðvirki eru oftast hátt fyrir ofan byggð og ekki mjög sýnileg í náttúrunni. Varnargarðar eða leiðigarðar eru notaðir til að beina snjóflóðum í tiltekinn farveg, hægja á og stöðva snjóflóð. Helstu ókostir varnargarða eru þeir að þeir þarfnast töluverðs landrýmis og valda óafturkræfum breytingum á landslagi en kostur þeirra er sá að kostnaðurinn er minni en við upptakastoðvirki. Ég vil að þessar reglugerðir verði endurskoðaðar og að náttúruverndarsjónarmið fái vægi þegar snjóflóðavarnir eru reistar á Íslandi.