146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er gott og blessað að tala um kaupmátt, meðaltöl og því um líkt, en ég held að það sé rosalega mikilvægt að skilja hvað fátækt er. Ég sjálfur hef upplifað fátækt á ævi minni og í gegnum huga fólks fara hugsanir eins og: Ég á 500 kr. á dag það sem eftir er mánaðarins ef ég geri ekki neitt annað, bara fyrir mat. Ekki vera tannpína, ekki vera hola. Það kostar að fara til læknis en kannski ef ég slepp við að kaupa lyfin. Ég verð að vinna með námi, redda mér einhvern veginn þannig. Áhrifin af fátækt eru rosalega lúmsk, þau gera það ekki bara að verkum að maður hefur lítinn pening heldur verður allt annað dýrara. Lán verða dýrari, það verður að taka lengri lán. Áhættan af lánum er meiri. Það er margt sem við höfum þó til góðs á Íslandi, það er lítill munur á milli hæstu og lægstu launa. Það er gott. Ég hef sjálfur upplifað það að geta unnið mig upp úr þeim mörkum þar sem ég var með sem minnstar tekjur sem starfsmaður á leikskóla. Þar myndi ég enn vilja vera ef launin þar væru ágæt, en það er ekkert sjálfsagt að ná að fara í þetta ferli, að fara í betri vinnu, fara í meira nám og vinna sig upp þann stiga. Það gerist ekkert sjálfkrafa, það er rosalega erfitt.

En það þarf ekki mikið til. Munurinn á því að þurfa að hafa stöðugar áhyggjur af því hvort maður eigi pening fyrir mat í lok mánaðar eða fyrir reikningum og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því — það er rosalega lítill munur í mánaðarlaunum sem þarf til.

Þar er eitt af vandamálunum þær fátæktargildrur sem við erum með í kerfunum. (Forseti hringir.) Píratar hafa talað fyrir því að líta að skilyrðislausri framfærslu. Þar getum við kannski losað fólk úr fátæktargildru.