146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er óumdeilt að Íslendingar eru meðal ríkustu þjóða í Evrópu. Efnahagsástandið er í reynd þannig að enginn íbúi á Íslandi ætti að þurfa að búa við fátækt — ef gæðunum væri rétt skipt. Sú er þó ekki reyndin, því miður.

Gamlar skýrslur og nýjar sýna og staðfesta að fátækt er staðreynd á Íslandi. Það er fátækt fólk á Íslandi, það eru fátæk börn á Íslandi, börn af holdi og blóði, ekki bara tölur á blaði, og núna er rétti tímapunkturinn til að ræða þetta vegna þessarar góðu efnahagslegu stöðu.

Það er hægt að útrýma fátækt á Íslandi. Með metnaðarfullri stefnumörkun, ákvörðunum og aðgerðum geta stjórnvöld komið í veg fyrir fátækt. Fátækt er pólitísk ákvörðun og það þarf pólitískan kjark til að útrýma henni.

Það telst varla lýsa miklum metnaði sem sést á bls. 332 í ríkisfjármálaáætluninni þar sem reiknað er með að á árinu 2022 skuli 4% barna á Íslandi enn þá búa á heimilum sem skortir efnahagsleg gæði og að 8% barna muni þá búa á heimilum undir lágtekjumörkum. Hér má sannarlega gera betur. Það þarf að berjast gegn ójöfnuði og stéttskiptu samfélagi. Það þarf að tryggja að allir hafi sama rétt, sama aðgang og geti nýtt sér grunnþjónustuna í samfélaginu. Við verðum að gera grunnþjónustuna í heilbrigðis- og menntakerfinu ókeypis aftur. Ég segi aftur vegna þess að það eru ekki nema fjórir eða fimm áratugir frá því að fátækt fólk á Íslandi gat búið í öruggu húsnæði í skjóli verkamannabústaða, það gat farið til læknis og inn á sjúkrahús án þess að þurfa að taka upp budduna og það gat sent börnin sín til mennta. (Forseti hringir.)

Hvað gerðist eiginlega á okkar vakt? Við getum gert betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)