146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:28]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka fyrir þessa umræðu hér í dag. Í umræðunni felst þörf brýning og hvatning til að gera enn betur í baráttunni fyrir samfélagslegum aðstæðum þar sem fólki er raunverulega gert kleift að lyfta sér upp úr fátækt. Við eigum að byggja upp samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að breyta aðstæðum sínum séu þær bágar, samfélag þar sem fólk festist ekki í fátæktargildru. Þangað eigum við að stefna og þangað stefnum við.

Þótt við á Íslandi stöndum almennt vel í alþjóðlegum samanburði er ljóst að enn er verk að vinna. Húsnæðismálin eru sannarlega stór partur af vandanum en húsnæðis- og leiguverð hefur þróast með þeim hætti að viðkvæmir og tekjulágir hópar eiga erfitt með að koma sér upp viðeigandi húsnæði eða heimili. Þarna er verk að vinna. Sú vinna er nú þegar hafin. Þótt ljóst sé að miðað við síaukna eftirspurn eftir vinnandi höndum erlendis frá verður erfið áskorun að mæta þeirri þörf. Þörf sem ágerist bara með hverju árinu og hverjum mánuðinum miðað við tölur um vöxt ferðaþjónustunnar, atvinnugreinar sem þarfnast einmitt margra vinnandi handa.

Þegar þróunin er með þessum hætti, þegar við eigum fullt í fangi með að byggja upp íbúðarhúsnæði fyrir aukinn fjölda íbúa, og hvað þá fyrir nýja íbúa landsins, á sama tíma og eftirspurnin eftir vinnandi höndum er mikil, skapast aðstæður þar sem einhverjir atvinnuveitendur gætu freistast til að finna óviðunandi íbúðarlausnir til að fá til sín starfsfólk. Starfsfólk af erlendum uppruna er í sérstökum áhættuhópi hér en þetta er sá hópur sem veit kannski síður hver réttur hans er og hvernig á að sækja hann.

Við sjáum teikn á lofti um þetta nú þegar og fáum fregnir af fólki sem hefur jafnvel þurft að búa í ófullnægjandi íverustöðum í iðnaðarhúsnæði. Mig langar að nýta tækifærið og spyrja ráðherra hvernig hann meti umfang þessa vanda, hvernig eftirlitsmálum með þessu sé háttað, hver beri ábyrgð á því eftirliti og hvort sá aðili hafi burði til að sinna því. (Forseti hringir.) Má ætla að ríkisstjórnin muni ráðast í að laga þennan vanda með lausnum húsnæðishóps ráðherra?