146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu sem fer fram í þingsal í dag. Það er alveg ljóst að fátækt á Íslandi er staðreynd og það er sama hvernig við lítum hana, það eru allt of margir sem líða skort og fátækt af mismunandi ástæðum. Verkefni okkar er fátækt, umkomuleysi og örbirgð sem nagar samfélagið að innan. Við verðum að horfast í augu við vandann og taka á honum. Verkefni okkar er að byggja upp kjör þeirra sem eru öryrkjar, sérstaklega þeirra sem teljast til yngri öryrkja. Fyrir okkur liggur að klára samninginn um starfsgetumat eins og Pétursnefndin lagði til en Öryrkjabandalagið hafnaði því á síðustu stundu og því búa öryrkjar ekki við sömu kjör og þeir hefðu annars getað gert þar sem enn þá er króna á móti krónu skerðing. Það er mikilvægt að við klárum þennan samning sem fyrst og helst um næstu áramót svo að þau komist í hóp þeirra sem hafa ekki undir 300 þús. kr. í tekjur.

Í fáum löndum er jöfnuður jafn mikill og á Íslandi og við viljum gera betur, að allir geti eignast húsnæði sem kjósi svo. Við settum líka lög á Alþingi um almennar íbúðir. Þar eru leigureglur þannig að sá hópur ætti gott með að leigja húsnæði sem er á bótum. Leigan í þeim lögum er 25% af tekjum. Húsnæðis- og heilbrigðismál eru mikilvægasti þáttur þessa fólks. Það er mikilvægt að við hvert og eitt, við öll, berum ábyrgð á eigin lífi og heilsu og framtíð og hjálpum fólki til sjálfshjálpar og félagslegrar virkni í samfélaginu. En að benda hér hver á annan og segja að gæfunni sé misskipt og fátækt á Íslandi sé einhverjum fáum að kenna — þá spyr ég: Þurfum við ekki að líta í eigin barm og spyrja: Hvað gerum við til að hjálpa öðrum?