146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:38]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ræddi áðan um mikilvægi þess að velferðarkerfið okkar klikkaði ekki þannig að við týnum fólki milli kerfa. Það er líka mikilvægt að gera það ekki háð kerfum. Valdefling og virkni, eins og verkefnið TINNA snýst um og hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi, eru jafn mikilvægir þættir í að styðja við fólk. Aðgerðir sem gripið er til og verkfæri sem við beitum í því skyni þurfa að miða að því að bæta hag, líðan og sjálfsmynd þeirra sem eru allra fátækastir. Það þarf að vera forgangsmál.

Umræðan hér í dag snýst um hvernig hið opinbera getur beitt sér gegn fátækt og auðvitað er það með því að efla og þróa þau kerfi sem ég taldi upp áðan. Við megum ekki að mínu mati treysta eingöngu á hið opinbera til að leysa allt. Menn þurfa að þora að ræða mikilvægi þess að við tryggjum samræmi milli hinna ýmsu aðila sem mynda samfélagslegan grunn. Ábyrgðarskyldan er ekki eingöngu ríkisins þegar kemur að umræðu um fátækt. Samfélagsleg ábyrgð og gagnsæi gagnvart láglaunafólki þarf að vera forgangsmál allra. Á það við um gerð efnahagsáætlana, þróun atvinnulífs og hins almenna vinnumarkaðar. Hún á líka við um frumkvæði í atvinnulífinu og þegar samið er um kaup og kjör. Þessir þættir hafa jafn mikil áhrif á þá sem eru á mörkum fátæktarviðmiða.

Það er örþunn lína á milli þeirra lægst launuðu og bótaþega. Við þurfum að passa vel upp á að við bjóðum öllum jaðarhópum upp á tækifæri til reisnar og virðingar. Ég held að við eigum t.d. að tala opinskátt um af hverju einu innflytjendurnir á Alþingi, fyrir utan okkur hv. þm. Pawel Bartoszek, er fólk með kúst í höndunum. Mun þetta fólk tilheyra næstu kynslóð fátækra hér á Íslandi? Og viljum við það?