146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

dómstólar og breytingalög nr. 49/2016.

481. mál
[15:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að spyrja um tvennt: Í fyrsta lagi vil ég spyrja um þá áætlun að Landsréttur taki við óloknum málum frá Hæstarétti. Þurfa mál að vera komin á eitthvert ákveðið stig til þess að geta farið yfir til Landsréttar eða á þetta við um öll ólokin mál? Þurfa málin að vera hafin? Hefur fólk engar áhyggjur af því að einhver þekking og skilningur á málinu glatist ef það er fært yfir í nýtt dómstig?

Mig langar að spyrja þessara spurninga í samhengi við það sem fram hefur komið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en í kaflanum um dómstóla er talað talsvert um að héraðsdómstólarnir, Landsréttur og Hæstiréttur, þurfi á nýju gagnaskiptakerfi að halda sem og auknum tæknibúnaði og endurnýjun tæknibúnaðar til þess að geta sinnt störfum sínum svo vel megi vera.

Í ljósi þess að færa á talsvert af málum frá Hæstarétti til Landsréttar langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að það vanti búnað og að það vanti þetta gagnaskiptakerfi, að það verði ekki komið í gagnið eða tilbúið til þess að standa að jafn stórri tilfærslu mála og áætlað er? Ég byrja á þessum spurningum:

Verða Landsréttur og Hæstiréttur tilbúnir til þess að skiptast á þessum upplýsingum á viðeigandi hátt?

Á hvaða stigi máls verða mál að vera til þess að þau fari yfir í Landsrétt?