146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugavert mál og kom inn á fund fjárlaganefndar þann 1. mars sl. þar sem lá ljóst fyrir að staðan hefði verið öllum kunn í a.m.k. mánuð ef ekki lengur. Hér er verið að sækja um aukna ríkisábyrgð vegna framkvæmdar við að klára göngin. Að klára framkvæmdina er allra góðra gjalda vert en í lögum um ríkisábyrgð segir að ef lánsþörf er ekki hægt að uppfylla á almennum lánamarkaði sé ríkissjóði óheimilt að takast á hendur ríkisábyrgð nema að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, og svo er þar varðandi það að uppfylla á almennum lánamarkaði. Það segir í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs að matið falli undir spákaupmennsku. Það muni enginn á almennum markaði lána fyrir þessi verkefni. Samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir getur ríkissjóður þar af leiðandi ekki gengist undir ríkisábyrgð á þessu láni. Þetta verður að fara í fjárlög ef á að redda því svona.