146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisábyrgðasjóður veitti umsögn um málið og það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að þessi framkvæmd og gangur hennar er þess eðlis að þess er ekki að vænta að hægt væri að fá lán fyrir viðbótinni á almennum markaði, enda myndi ríkissjóður með það lán sem þegar hefur verið veitt ganga á undan í röðinni.

Menn hafa uppi efasemdir um að það tekjurnar muni nægja til framtíðar til þess að ná upphæðinni að fullu. Það er hárrétt. Þarna er hins vegar verið að veita lán til þess að auka líkurnar á því, og verða þá yfirgnæfandi líkur samkvæmt því sem Ríkisábyrgðasjóður segir, að það fáist eitthvað greitt upp í það lán sem þegar hefur verið veitt, þ.e. þessir 4,7 milljarðar verði greiddir að fullu, og það verði greitt að talsverðu leyti upp í það lán sem þegar hefur verið veitt.

Um það veit að sjálfsögðu enginn. Að því leyti er það rétt hjá hv. þingmanni að um nokkra spákaupmennsku er að ræða. Ég vil alveg taka undir að vinnubrögð við þetta mál hafi verið óvenjuleg og einmitt þess vegna erum við að taka málið allt til skoðunar, en í stöðunni eins og hún er þá er ríkissjóður að forða sér frá stærra tjóni með því að stöðva ekki framkvæmdina því að þá myndi verða altjón á því láni sem þegar hefur verið veitt til verksins.