146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferð hans á frumvarpinu. Mig langar að einhverju leyti að spyrja út í svipaða hluti og hv. þm. Vilhjálmur Árnason. Í frumvarpinu segir, og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það, að samhliða því hefði ríkisstjórnin ákveðið að gerð yrði „ítarleg úttekt á framkvæmdinni allri og ástæðum þess að kostnaður við hana hefur verið langt umfram áætlanir. Hafin er vinna við umrædda úttekt og er gert ráð fyrir að hún liggi fyrir um mitt þetta ár.“

Ég er mikill talsmaður þess að gerðar verði úttektir. Þótt ég hefði kannski haldið að úttekt á framkvæmd yrði skynsamlegri þegar henni er lokið að fullu er ég mjög sáttur við að gerð verði úttekt á þessu. Vonum að allt haldist innan áætlana eftir úttektina. En mig langar að spyrja á svipuðum nótum og hér var gert áðan, þ.e. út í frekari framkvæmdir sem gæti mögulega farið um á svipaðan hátt og þessa hér. Það er ekkert launungarmál að hæstv. samgönguráðherra hefur talað mikið fyrir því að frekar verði farið í samkrull einkaaðila og ríkisins. Ég er ekki að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hyggist leggja fram frumvörp þess efnis. Ég þykist þekkja þingsköpin nógu vel til að vita að svo er ekki. Hann er hins vegar einn af oddvitum ríkisstjórnarinnar. Sem slíkan langar mig að spyrja hann út í afstöðu hans til þess. Telur hæstv. fjármálaráðherra að það sé ráð að fara í frekari framkvæmdir sem um verði háttað á svipaðan máta og þessa, þ.e. að ríkið fari í samstarf við einkaaðila?