146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:38]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra þá eru ekki endilega margir góðir kostir í þessu máli. Ég játa að ég öfunda ekki hæstv. fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson af því að þurfa að leggja málið fram.

Í stuttu máli er um að ræða milljarðalánveitingu til skuldugs einkaaðila sem heitir Vaðlaheiðargöng hf. Auðvitað eigum við í ansi flóknu sambandi við þann einkaaðila, hann skuldar okkur pening. Við höfum gert samning við hann sem er þannig að við eignumst eignir hans þegar lánið hefur verið greitt niður og við eigum um það bil helmingshlut í þessum einkaaðila. Sambandið er vissulega flókið en slíkt samband er ekki eitthvað sem ekki þekkist í viðskiptum eða félagarétti.

Við megum ekki gleyma því að þetta fer stundum fram með því að taka næstu ákvörðun. Við verðum að líta svo á að við séum hér að huga að hagsmunum ríkissjóðs sem einir af stjórnendum hans. Það verður að hafa í huga að skammstöfunin hf. fyrir aftan nöfn fyrirtækja er ekki hugsuð sem gæðamerki heldur þvert á móti sem viðvörun til þeirra sem stunda viðskipti við þá aðila; að þarna séu á ferðinni félög með takmarkaða ábyrgð. Á erlendum tungumálum er gjarnan lögð sérstök áhersla á þetta með því að hampa því, talað er um „limited“ á ensku. Sambærileg lýsingarorð eru notuð í öðrum tungumálum til að sýna að um sé að ræða félög með takmarkaða ábyrgð. Það er kannski ekki nægilega skýrt í íslenskri orðnotkun að um sé að ræða félag sem gæti farið á hausinn og endað á því að geta ekki greitt upp sín lán.

Ég ætla aðeins að víkja að umsögn Ríkisábyrgðasjóðs, sem er helsta gagn okkar þegar að því kemur að taka ákvörðun um framtíðina. Í þeirri umsögn eru gefnar ýmsar forsendur. Til dæmis er ein þeirra forsendna sem gefin er í umsögninni að 85% þeirra ökumanna sem hyggjast fara umrædda leið muni velja að fara um göngin og að meðalverðið án virðisaukaskatts verði 1.200 kr. eða 1.350 kr. með virðisaukaskatti. En þetta eru göng sem spara 15 mínútur í ferðatíma. Í samanburði má geta þess að með því að fara göngin undir Hvalfjörð, þar sem fargjaldið er 1.000 kr., sparast fjórfalt meiri ferðatími.

Ég tek þetta dæmi til að minnast aðeins á óvissu. Kannski má segja að óvissan sé að einhverju leyti yfirstaðin vegna þess að tekist hefur að ljúka við framkvæmdina, að bora í gegnum göngin, en enn er heilmikil óvissa varðandi rekstur. Rekstraróvissa er enn til staðar. Hve margir munu nýta sér göngin? Hvernig þarf að standa að verðlagningu til að göngin geti staðið undir sér?

Ef ég held áfram að tala um umsögn Ríkisábyrgðasjóðs þá var það þannig að samkvæmt lánssamningi átti lánstími ekki að vera lengri en 30 ár frá upphafi framkvæmda. Líkur á að það takist, miðað við þessar, að því er ég met, þó bjartsýnu forsendur sem gefnar eru, telur Ríkisábyrgðasjóður að verði 8% ef lánið verður tekið á almennum kjörum og líkur á greiðslufalli 22%. Vandinn er sá að ríkissjóður er þegar lánveitandi og þarf að gæta að hag sínum sem slíkur. Það var að mínu viti ekki gert við upprunalegu lánveitinguna en í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs á sínum tíma, árið 2012, sagði, með leyfi forseta:

„Afar ólíklegt er að unnt verði að endurfjármagna framkvæmdarlán vegna Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar með þeim lánskjörum að verkefnið standi undir sér og ríkissjóður fái lán sitt þannig endurgreitt.“

Þetta kemur fram í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs frá 2012. Það eru því víti til að varast hér, sem við þurfum að taka tillit til. Við þurfum að taka tillit til þess sem kemur síðan fram í þessari greinargerð.

Niðurstaða Ríkisábyrgðasjóðs birtist svo vissulega í lok greinargerðarinnar, sem ráðherrann fór yfir, að úr því sem komið er telur RÁB að samþykkja ætti viðbótarlán upp á 4,7 milljarða með 5% vöxtum að óbreyttu 0,6% áhættugjaldi. Síðan segir að tillögur RÁB um hvernig auka megi möguleika á að ríkissjóður fái sem mest af lánum sínum greitt til baka komi fram framar í þessari umsögn.

Sú spurning stendur eftir hvað eigi að gera ef við mundum aftur lenda í þessu, ef við samþykkjum aftur meira fjármagn af því að við erum þegar búin að eyða svo miklu. Hvað þýðir það? Þá erum við sem ríkissjóður aðilar að félagi með takmarkaða ábyrgð en berum, að því er virðist, ótakmarkaða ábyrgð.

Mig langar aftur að vísa í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs, á bls. 9, sem er atriði sem mér finnst ekki hafa verið fjallað nægilega um í þessari umræðu. Það lýtur að hlutafénu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutafé félagsins er 600 millj. kr. og eru hluthafar þess ríkissjóður Íslands, Akureyrarkaupstaður, KEA, ÚA, fjárfestingarfélag Norðurþings og smærri hluthafar í gegnum Greiða Leið ehf. Þegar allt hlutaféð verður greitt í lok ársins 2017 mun ríkissjóður vera minnihlutaeigandi með rúman 36% hlut á meðan Greið Leið ehf. heldur á 66% hlut. Það er áhyggjuefni að ríkissjóður Íslands, sem ber fjárhagslega langmesta áhættu á að verkið gangi upp, virðist hafa takmörkuð áhrif á hvernig gjaldskrá ganganna verði háttað í framtíðinni. Hægt er að tryggja betur hagsmuni ríkissjóðs í verkefninu t.d. með því að setja kröfu um að viðbótarlán verði ekki veitt nema að ríkissjóður eignist meiri hluta í félaginu VHG hf. Ríkissjóður þarf ekki að leggja meira fram en 100 millj. kr. til að eignast meiri hluta í félaginu, sem er ekki mikið í ljósi þess að framkvæmdalánið sem ríkissjóður leggur til stefnir í 16,6 milljarða kr. í árslok 2018. Einnig væri hægt að gera það að skilyrði fyrir viðbótarláni að eignarhlutur annarra en ríkissjóðs verði þynntur út.“

Ég hef fyrir fram tilhneigingu til að gera þessa skoðun að minni. Það er vissulega þannig að ef við ætlum að halda áfram með framkvæmdina þá finnst mér að stærsti ábyrgðaraðili verði um leið stærsti hluthafi, ef við förum þá leið, og hafi eitthvað um það að segja hvernig gjaldskránni er háttað þegar fram líður.

Þetta skiptir máli vegna þess að við getum lent í því að bera fulla ábyrgð á þessu félagi og geta ekki tekið nauðsynlegar ákvarðanir um gjaldskrárhækkanir. Ef öll ábyrgðin á að vera í höndum ríkisins finnst mér að samsetning félagsins eigi að endurspegla það.

Að lokum finnst mér eitt vanta inn í þessa umfjöllun: Hvað myndi gerast ef við myndum ekki gera neitt? Hvernig myndi sá kostur líta út ef þetta færi einfaldlega í þrot, yrði gert upp og annað fyrirkomulag tæki við? Ég er ekki að halda því fram að ég sé viss um að það sé betri lausn, alls ekki, en mér finnst margt koma til greina úr því sem komið er. Mér fyndist í það minnsta að það ætti að leggja það fram hvernig önnur lausn myndi líta út til þess að við, sem þingmenn sem berum ábyrgð á fjárhag ríkissjóðs, gætum tekið um það upplýsta ákvörðun.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef komið inn á hef ég talsverðar efasemdir í tengslum við þetta mál. Ég hef viðrað þær og vona að nefndin taki þau atriði til ítarlegrar skoðunar í umfjöllun sinni.