146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála þingmanninum. Ég tek undir það að starfsmennirnir sem þarna eru hafa aldeilis lent í ýmsu og tekist á við gríðarlega flókin og mikil og erfið verkefni. Þarna er mikill mannauður í þekkingu. Þess vegna segi ég: Það á að bora göng, um leið og einum lýkur á að hefjast handa við að bora önnur. Það á að vera þannig. Landið okkar er þannig. Það var sorglegt að það skyldi verða tíu ára stopp í gangagerð áður en þessi fóru af stað í kjördæmi okkar. Það er líka þannig að yngra fólk sest frekar að ef samgöngur eru greiðar, ef aðgengi að heilbrigðisþjónustu er tryggt o.s.frv. Þetta er partur af því að styrkja svæðið, allar svona framkvæmdir, hvort sem það eru Bolungarvíkurgöng eða þegar Borgarfjarðarbrúin var byggð á sínum tíma. Ég var ekki gömul þá en þar sem ég var að bera út blöð man ég eftir því að það voru stórar forsíður þar sem þetta var algerlega fordæmt og þótti gríðarlegt kjördæmapot og guð má vita hvað. Ekki vildi ég vera án Borgarfjarðarbrúarinnar í dag. Það er alveg eins og með Landeyjahöfn. Það fylgir öllu áhætta. Það hafði ekki gosið í 160 ár, daginn eftir að Landeyjahöfn er tekin í notkun fer að gjósa. Þá berst gríðarlegt magn af sandi og ösku og því um líku sem býr til þá erfiðleika sem höfnin er í og sér ekki fyrir endann á. Hvað ætlum við að gera? Hætta við? Nei, við ætlum auðvitað að reyna að finna lausn á vandanum.

Við búum á þannig landsvæði, að við þurfum að taka mikla áhættu með mjög margar framkvæmdir, sérstaklega sem snúa að samgöngumálum.