146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:25]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé kærlega fyrir greinargóða ræðu þar sem hann gerir grein fyrir sjónarmiðum og vill læra af þeirri reynslu sem sagan hefur fært okkur. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort sá lærdómur þingmannsins kunni ekki að vera örlítið valkvæður því að svo vill til að sá lærdómur sem hann vill draga af sögunni fellur ansi vel að heimsmynd hans um að hið opinbera ætti að gera meira en ekki minna.

Ég dró líka ákveðinn lærdóm af sögunni, af þessari framkvæmd, í ræðu minni. Það hefði verið hægt á sínum tíma, þegar menn ákváðu að fara í framkvæmdina og leggja í þessa fjármögnum, að lesa t.d. umsögn Ríkisábyrgðasjóðs og komast að því að þar kom fram ansi skýrt að menn voru alls ekkert sannfærðir um það að sú lánveiting sem væri á ferðinni myndi skila sér til baka til ríkissjóðs.

Innan þess ramma sem ég þykist synda í — þetta er ekki besta myndmál í heimi en við skulum vinna með það — er vel hægt að komast að þeirri niðurstöðu að hægt é að fara í samstarfsfjármögnun með því að fara með einhverjum hætti í þá vinnu að einkaaðilar fjármagni vegakerfið með veggjöldum, að því gefnu að það séu rekstrarforsendur fyrir því og fyrir liggi álit um að ríkissjóður muni ekki bera skarðan hlut frá borði.

Það eru dæmi um einkaframkvæmdir í vegakerfi sem hafa tekist ágætlega, ein þeirra á Íslandi er Hvalfjarðargöng. Það má finna slík dæmi víða í Evrópu.

Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn geti ekki farið í sjálfsskoðun og hugsað um það hvort hann kunni að draga of víðtækar ályktanir af þessu eina dæmi.