146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eflaust dreg ég of víðtækar ályktanir af þessu eina dæmi ef það hefur komið út úr mínum munni áðan að í þeirri stöðu sem nú væri uppi væri svarið við öllum þeim spurningum sem að þessu lúta á næstu misserum og árum, það var í það minnsta ekki ætlan mín að svo væri, ef ég hef sagt það. Þetta er eitt af því sem við þurfum að læra af. Ég er hins vegar harður á því að ef menn eru með samkrull einkafjármagns og opinbers er með því búið til aukið flækjustig.

Hv. þingmaður sagði áðan þegar hann var að ræða um lánveitinguna á sínum tíma að efasemdir hefðu verið uppi um hvort hún skilaði sér til baka til ríkissjóðs og spurði hvað væri að því að einkaaðilar fjármögnuðu vegakerfið og fengju það til baka. Það er alveg hægt að finna einstaka framkvæmd, ég er alveg viss um það og segja: Þetta er eina leiðin hér. Ég bara veit það ekki. Ég hef ekki séð það. Ég er að tala heilt yfir og almennt. Þegar við erum komin með svona inn í jöfnuna, þ.e. þetta sem hv. þingmaður talar um, að lánveitingin skili sér til baka og fjármögnunin sé tryggð og allt það, þá erum við komin með forsendur fjármagnsins inn. Hvað með þær framkvæmdir þar sem lánveitingin mun aldrei skila sér til baka? Hvað með framkvæmdir sem munu aldrei borga sig? Það er blússandi tap á þeim á næstu 200–500 árum, sú framkvæmd mun aldrei borga sig upp. Ætlum við ekki í þær, eða? Á það að vera ríkið sem greiðir þær úr eigin vasa en einkaaðilar komi að þeim sem eru mögulega arðbærar? Hvernig höldum við þá að forgangsröðunin verði, af því að það er ekki þannig að það sé endalaust hægt að vera í vegagerð á Íslandi, það er ekki bara fjármagnið sem er takmarkandi þáttur þar? Verður þá ekki alltaf (Forseti hringir.) sú framkvæmd ofar á forgangslistanum sem er fullfjármögnuð eða að hluta til af einkaaðila?