146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:30]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Það má eflaust setja upp ýmsar sviðsmyndir í þessum efnum. Ég benti einungis á eitt dæmi um samstarf við fjármögnun sem við fórum í sem heppnaðist klárlega ekki neitt rosalega vel, ef við orðum það frekar pent. Hér er frumvarp til að leysa úr því og ég vona að við sjáum það á endanum gera það.

Þingmaðurinn spyr álitlegra spurninga um það hvernig við sjáum fyrir okkur vegakerfið, hvort við sjáum fyrir okkur vegakerfi þar sem ríkið heldur utan um ákveðið stofnkerfi sem er það sem við teljum að muni ekki þurfa að bera sig en að einkaaðilar sjái um einhvern þátt kerfisins að hluta á meðan fjármögnun stendur sem við teljum að geti borið sig. Ég skal játa að í heimsmynd minni er það fínt. Ég hef keyrt á þannig kerfum víða í Evrópu, sem eru að einhverjum hluta fjármögnuð af einkaaðilum sem hafa þekkingu á slíku. Ég fæ ekki martraðir yfir því að það yrði að einhverju leyti fyrirkomulagið. Þar greinir okkur kannski á.

Ég er raunsær í því að það muni kannski ekki vera hægt að fjármagna veg milli fámennra svæða á Vestfjörðum, Austfjörðum. Við skulum taka einn dæmigerðan tveggja akreina veg sem tengir saman tvo bæi og tvö þorp, það er engin ástæða til að gera það í einkaframkvæmd. En þegar við erum að tala um hraðbrautir eða göng eða samgöngumannvirki sem eru sannarlega virðisaukandi þá líður mér vel með að það geti að hluta til verið fjármagnað með einkafjármagni.