146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að ég fæ ekki martraðir um þær sviðsmyndir sem hann teiknar upp. Raunar fæ ég sjaldan martraðir og draumfarir mínar þessa dagana eru með eindæmum góðar, enda lífið yndislegt nú um stundir.

En ég kann vel við svona skoðanaskipti. Mig og hv. þingmann greinir á um grundvallarsjónarmið þegar kemur að fjármögnun á því sem ég tel að eigi að vera hluti af samneyslunni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður telur það eiga að vera hluta af samneyslunni en að það skuli fjármagnað á einhvern annan hátt, það skiptir kannski ekki öllu máli. Ég sé hættumerki á lofti ef þetta verður hin almenna regla.

Það eru víða tafir á framkvæmdum, einfaldlega vegna þess að það eru ekki nægilega margir verktaka, það er ekki til fólk til að vinna hluti. Það vantar tæki til að gera eitthvað. Ef ekkert annað en fjármagnið ræður för held ég að jaðarbyggðir séu í hættu, dreifðari svæði, jafnvel svæði þar sem þörf er á sárum úrbótum vegna slysahættu en vegurinn er ekki það fjölfarinn að hann raðist nógu ofarlega. Ég óttast að þetta muni allt sitja á hakanum gagnvart þeim framkvæmdum sem bera sig, þar sem fjármagnið er til staðar af hálfu einkaaðila, þar sem þetta verður bara eins og fjárfesting, eins og að kaupa hluti í hlutabréfum, verðbréfum eða hvað það heitir, þar sem einkaaðilar ætla að fá ávöxtun sína til baka eins og eðlilegt er, sem er það sem fjárfestar ætlast til að gera. Ég fæ ekki martraðir yfir því en ég óttast að verði þetta hin almenna regla geti þessi staða komið upp.