146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

523. mál
[16:43]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hljómar við fyrsta yfirlestur ágætlega, þar til maður veltir fyrir sér hlutverki lóðs- og dráttarskipa. Hlutverk þeirra er að lóðsa inn og draga að skemmtiferðarskip sem eru með 5.000 manns um borð. Hér er verið að slá af kröfum til mannsins sem gerir það. Það er að mínu mati ekki góð nálgun. Sá sem stendur hér er „actually“ skipstjórnarmaður. Ég fæ hroll við að hugleiða þetta. Og að þetta fari ekki til frekari umræðu í nefndinni líst mér hræðilega á.

Varðandi það að þessir bátar séu að verða öflugri og að það séu tvær aðalvélar. Það er punktur út af fyrir sig, þ.e. með vélstjórann, að ekki þurfi endilega að leggja vélarnar saman enda er það fáránleg regla. En varðandi stjórnina á skipinu sjálfu sé ég bara fyrir mér að við verðum að athlægi utanlands þegar við sendum trillukarl til að hala inn stærðarinnar farþegaskip. Það er svona mín áhyggja.

Svo eru það líka rökin hér, þ.e. að fyrirtækjum hafi reynst erfitt að manna vinnuskip eins og um úthafsskip væri að ræða, ég held að það sé bara launatengt. Ég held að það sé ekkert erfitt að fá menn í þetta ef fyrirtækin eru tilbúin að borga. Ég held að við ættum ekki að fara að slá af kröfum af því að fyrirtækin eru ekki tilbúin að borga.