146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

523. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að réttindi þeirra sem venjulega eru skipstjórar á þessum bátum — lóðsbátunum og bátum sem hafa þetta vinnuhlutverk varðandi sjókvíaeldi — voru skert með nýjum lögum. Það er verið að leiðrétta það. 30 brúttórúmlesta bátar, sem geta verið allt að 19 m að lengd, eins og kemur fram hér — þar er skert niður í 12 m. Hv. þingmaður, sem er skipstjórnarmaður, hlýtur að átta sig á að með því er verið að skerða réttindi handhafa þeirra skipstjórnarskírteina verulega. Það er mikil skerðing sem á sér stað með því að skera af allt að 7 m hvað varðar réttindi þeirra til að stjórna slíkum skipum. Ég vil nú benda á það sem rökin í málinu.

Varðandi farsviðið, eins og fram kemur í frumvarpinu, þá er það miklu minna en ef um er að ræða úthafsréttindi. Það er líka góður rökstuðningur í frumvarpinu fyrir því hvað þetta farsvið er miklu minna. Það kemur líka fram að lóðsbátarnir hafa verið að stækka verulega og vélarafl þeirra að aukast. Þannig að þeir sem hafa stýrt lóðsbátunum hingað til hafa verið að lóðsa inn í hafnir stór skip á minni bátum, ef eitthvað er.