146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 um breytingu á XIII. viðauka og XX. viðauka við EES-samninginn.

364. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Jóna Sólveig Elínardóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 um breytingu á XIII. og XX. viðauka við EES-samninginn. Utanríkismálanefnd fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa utanríkisráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er ætlað að fella inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/757 um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun koltvísýrings frá sjóflutningum. Reglugerðinni er ætlað að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda og setja á fót kerfi til að vakta losun koldíoxíðs frá sjóflutningum. Þá eru settar fram reglur um nákvæma vöktun, skýrslugjöf og vottun koltvísýringslosunar í því skyni að dregið verði úr losun koltvísýrings frá sjóflutningum. Engin skip eru skráð hér á landi sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar. Stærsta breytingin verður því fólgin í auknu hafnareftirliti þar sem sannreyna ber að þau skip sem koma að íslenskri höfn hafi um borð vöktunaráætlun en komi til þess að íslensk skip falli undir gildissvið reglugerðarinnar mun wlosunarskýrslu verða skilað til eftirlitsstofnunar EFTA og Umhverfisstofnunar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt og er samhljómur um það í nefndinni.