146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[17:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. málshefjanda þá er ég meðal þeirra sem er á meirihlutaálitinu, en hins vegar hafði ég ekki fengið í hendur umsögn Persónuverndar sem nú hefur borist og vildi ég því gera örfáar athugasemdir við meðferð málsins út af því.

Í meðförum málsins fyrir nefndinni var einmitt spurt að því hvort þetta fyrirhugaða ferli, þessi fyrirhugaða lagabreyting, hefði verið borin undir Persónuvernd og fram kom að svo hefði ekki verið. Taldi ég málinu þar með lokið með því að einfaldlega að koma þeim tilmælum að í nefndaráliti að Persónuvernd skyldi tilkynnt sérstaklega um þetta og sá ekki frekari vankanta á málinu enda þarft og gott, frábært að við séum að flýta fyrir lögreglumönnunum okkar með tæknivæðingu. Það er langoftast af hinu góða.

En mig langar, í ljósi þess að Persónuvernd gerir þrjár athugasemdir, að gera grein fyrir þeirri afstöðu minni og afstöðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar að við munum óska eftir því að fá þetta mál aftur til nefndarinnar til þess að geta heyrt frá Persónuvernd hvernig hún telji að við getum bætt þetta frumvarp til þess að það verði nú með sem bestu móti og verndi sem best meðferð persónuupplýsinga.

Ég vil aðeins koma inn á athugasemd frá Persónuvernd sem hv. þingmaður og framsögumaður Pawel Bartoszek reifaði kannski ekki neitt sérstaklega nákvæmlega, en það var síðasta athugasemd Persónuverndar, með leyfi forseta:

„Persónuvernd gerir þá athugasemd að í 1. gr. frumvarpsins, þar sem ræðir um afhendingu skýrslu, kemur ekki fram hver viðtakandinn eigi að vera. … Að auki skal bent á að því getur fylgt sérstök öryggisáhætta ef umræddar skýrslur eru sendar rafrænt, en t.d. gætu orðið þau mistök við sendingu í tölvupósti að ritað væri rangt netfang. Er ljóst að móta þarf verklag vegna þessa og er eðlilegt að texti umrædds ákvæðis endurspegli það. Þá má telja eðlilegt að ekki aðeins verði um að ræða heimild til setningar reglugerðar um umræddar skýrslur og afhendingu þeirra heldur að slík reglugerð skuli sett. Leggur því Persónuvemd til að 3. málsl. 1. gr. frumvarpsins hljóði svo:

„Ráðherra skal kveða nánar á um framkvæmd rafrænnar undirritunar og afhendingar skýrslu í reglugerð.““

Þetta finnst mér allrar athygli vert, herra forseti. Því vildi ég einfaldlega koma þeim sjónarmiðum á framfæri að þrátt fyrir að ég sé að sjálfsögðu mjög fylgjandi þessu máli þá tel ég fulla ástæðu til þess að skoða það betur.