146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur kærlega fyrir athugasemdir hennar. Ég vil gera örlítið grein fyrir því að við undirbúning á flutningi þessa máls í gær hafði ég ekki orðið var við þetta álit Persónuverndar, enda barst það fyrst í gær, og þó nokkuð eftir þann frest sem hafði verið gefinn, þannig að það er kannski ástæðan fyrir því að við gátum ekki tekið tillit til þess í nefndarvinnunni. Síðan hef ég rætt við hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um viðbrögð hennar við því. Ég náði því miður ekki að ræða það við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Ég bið hana afsökunar á að hafa ekki tekist að gera það, en í ljósi skoðunar hennar um að það sé tilefni til að taka málið inn til nefndar þá vil ég að sjálfsögðu reyna að halda sem breiðustum og bestum stuðningi við málið sem hefur hlotið stuðning allra nefndarmanna. Því beini ég því til þessarar samkomu Alþingis að málinu verði þá vísað aftur til allsherjar- og menntamálanefndar milli 2. og 3. umr.