146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[17:37]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég hef ekki miklu við nefndarálit minni hlutans að bæta, sem Oktavía Hrund Jónsdóttir, varamaður minn, skrifaði undir fyrir mína hönd og okkar Pírata, þar sem ég var staddur erlendis þegar málið var afgreitt úr nefnd.

Mig langaði þó að koma aðeins inn á og taka undir að röð atburða virðist hafa verið svolítið undarleg í þessu máli þegar farið var í ákveðna vegferð núna í vor við að lyfta gjaldeyrishöftum af okkar ágæta gjaldmiðli og síðan átti að afgreiða þetta mál sem gengur út á að heimila lán í erlendum gjaldmiðlum. Þetta gerist hvort tveggja áður en einhvers konar skipulag eða reiða er komin á vaxtastigið í landinu. Það skýrir hættuna sem verður til vegna þess vaxtamunar sem bent er á í minnihlutaálitinu, að víða erlendis eru vextir mun lægri en hér, jafnvel svo munar heilum 5% eða svo ef maður ber íslensk lán saman við þau lán sem fást á meginlandi Evrópu. 5% mismunur á lánum er alveg nóg til þess að til verði mjög öflugir hvatar til þess að fólk fari að stunda vaxtamunarviðskipti með einhverju móti. Að auki er ekki verið að takmarka þessi lán nema við örfá skilyrði, sem gerir það að verkum að hættan er mjög mikil. Á það bendir Seðlabanki Íslands sem sagði í áliti sínu að það væri galopin áhætta fyrir almenning og hagkerfið ef þetta færi ekki í gegn, sem er mjög skrýtið einmitt vegna þessarar undarlegu atburðarásar.

Það er mjög margt sem fram kemur í umsögnum um þetta mál, bæði frá hagsmunaaðilum í fjármálageiranum, en líka frá t.d. Neytendasamtökunum, sem fær mann til þess að velta fyrir sér hvort þetta sé ekki bara enn eitt dæmið um að verið sé að hlaupa af stað í einhvers konar reddingar, sérstaklega í þessu tilfelli þar sem verið er að leiðrétta einhvers konar mistök — eða ekki mistök í ljósi hrunsins — sem gerð voru gagnvart EFTA-samningnum þar sem þeim skyldum sem við eigum að standa undir hefur í rauninni ekki verið sinnt.

Nú er hlaupið til og það lagað án þess að allar forsendurnar séu lagaðar fyrst, þannig að við séum örugg um að þegar opnað er á þetta gerum við hlutina rétt. Ég segi, og hef sagt það áður í fyrri umræðu um þetta mál, að við eigum að bíða með þessa aðgerð þangað til við höfum náð að koma böndum á vaxtamuninn einmitt til þess að við séum ekki að skapa þá gríðarlegu áhættu sem þessu máli fylgir.

Einnig hefur verið bent á að hér sé verið að ganga mjög langt í því að opna á lán í erlendum gjaldmiðlum, að hægt væri að opna á það mjög takmarkað til þess að uppfylla ákvæði EES-samningsins. En í staðinn er verið að opna á þau töluvert meira, einmitt af því er virðist í þágu þeirra sem hafa meira fé á milli handanna. Verði þetta að veruleika, eins og virðist vera gengið út frá, er hættan orðin töluvert mikil á að vaxtamunarviðskipti og annars konar brask geti enn og aftur leitt okkur í fjármálalegar ógöngur í þessu landi. Ef þetta frumvarp verður að lögum núna verður það alfarið að skrifast á þá sem greiða því atkvæði og samþykkja framgöngu málsins. En ég myndi gjarnan vilja að við settum þetta mál á ís, að við biðum með það og löguðum vaxtamuninn hér í landinu, lækkuðum vexti neytendalána á Íslandi, og svo getum við samþykkt þetta mál, vegna þess að í sjálfu sér er ekkert að málinu sem slíku, það er bara tímasetningin sem er röng.