146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurfellingu laga um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, á þskj. 779.

Hér er um tiltölulega einfalt mál að ræða en í frumvarpinu er lagt til að lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga verði felld niður og sjóðurinn sameinaður B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hins vegar er lagt til að Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands verði lagður niður. Ríkissjóður greiði réttindi samkvæmt samþykktum sjóðsins. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins annist útreikninga á réttindahlutföllum.

Umsagnir um frumvarpið, þær fáu sem bárust, voru allar jákvæðar.

Nefndin er einhuga um að leggja það til að frumvarpið verði samþykkt.

Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita auk þess er hér stendur hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Katrín Jakobsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Lilja Alfreðsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.