146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, um lánshæfi aðfaranáms.

Frumvarpið er ekki langt, en hins vegar er það mikilvægt og svo sannarlega ekki í takt við þær áherslur sem minni hlutinn hefði viljað sjá. Við höfum gert verulegar athugasemdir við það hvernig málið hefur verið unnið í nefndinni þar sem við óskuðum eftir því að farið yrði yfir það hvort frumvarpið varðaði við stjórnarskrána og jafnræðisregluna. Því miður var ekki orðið við því.

Virðulegi forseti. Ég vil segja hér strax í upphafi að við munum óska eftir því að málið fari til nefndar á milli 2. og 3. umr. til þess að gefa meiri hlutanum tækifæri til að verða við þessari ósk okkar.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem varðar lánshæfi aðfaranáms. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að tilefni frumvarpsins er að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Lánasjóður íslenskra námsmanna – Lánshæfi náms og þróun útlána frá því í júní 2011, mátti finna alvarlegar athugasemdir við lánveitingar lánasjóðsins vegna aðfaranáms.

Aðfaranám, sem jafnframt er þekkt undir nafninu frumgreinanám, er í eðli sínu nám á framhaldsskólastigi fyrir nemendur sem af einhverjum ástæðum hafa ekki lokið námi við framhaldsskóla með formlegu framhaldsskóla-, starfsréttinda- eða stúdentsprófi. Námið fellur þannig ekki undir lög um framhaldsskóla heldur lög um háskóla, en í síðargreindum lögum segir að háskólum sé heimilt, að fengnu samþykki ráðuneytisins, að bjóða upp á aðfaranám fyrir einstaklinga sem ekki uppfylla inntökuskilyrði í háskóla. Aðfaranámið fer fram í samstarfi við háskóla eða á vegum hans, sem setur því reglur og ábyrgist gæði þess en fellur ekki undir yfirstjórn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Námið er í boði við þrjá einkarekna skóla hér á landi: Keili, Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Það sem hefur verið helsta sérstaða aðfaranámsins gagnvart hefðbundnu framhaldsskólanámi, hvort sem er í dagskóla eða kvöldskóla framhaldsskólanna, hefur verið sú staðreynd að lánað hefur verið til aðfaranámsins hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, bæði fyrir framfærslu og skólagjöldum. Langflestir nemendur hafa nýtt sér þann möguleika jafnvel þannig að þeir séu búnir að fullnýta möguleika sína til þess að taka lán fyrir skólagjöldum áður en kemur að háskólanámi.

Í skýrslunni, sem vísað er til í upphafi greinargerðarinnar, beinir Ríkisendurskoðun þeim tilmælum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að tryggt verði að ákvæðum laga sé fylgt, að skipuð verði fagleg nefnd um lánshæfi náms og settar reglur um lánshæf skólagjöld. Ríkisendurskoðun lagði jafnframt til við Lánasjóð íslenskra námsmanna að sjóðurinn fylgdi lögum um lánshæfi, tryggði jafnræði framhaldsskólanema og myndi binda rétt til námslána tilteknum aldri og fjárhæð, endurskoðaði reglur sínar um skólagjaldalán vegna náms erlendis og upplýsti lánþega reglulega um fjárskuldbindingar sínar.

Ríkisendurskoðun hefur ekki aðeins fjallað um aðfaranám í þessari skýrslu, heldur einnig í skýrslu sinni Frumgreinakennsla íslenskra skóla og hefur líka gefið út eftirfylgniskýrslur með þessum skýrslum. Þar beindi Ríkisendurskoðun þeim tilmælum til ráðuneytisins að það felldi frumgreinanámið að almennu framhaldsskólanámi og bætti lagaumgjörðina um námið.

Við tökum undir mikilvægi þess að skýr lagastoð sé undir því sem Lánasjóðs íslenskra námsmanna gerir, að Lánasjóðurinn sé ekki að lána án þess að lagastoð sé fyrir því. Við gerum hins vegar alvarlegar athugasemdir við að með frumvarpinu er ekki farið að ráðleggingum Ríkisendurskoðunar um lánveitingar sjóðsins til aðfaranáms og lítið sem ekkert gert með aðrar ábendingar stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun taldi að annaðhvort ætti að hætta alveg lánveitingum vegna aðfaranámsins eða breyta lögum um lánasjóðinn í samræmi við framkvæmd og gefa öllum nemendum framhaldsskóla kost á námslánum. Í umsögn skólameistara Fjölbrautaskólans í Breiðholti, sem barst við meðferð málsins, var bent á að með því að heimila aðeins lánveitingar til framfærslu og skólagjalda við sumt nám á framhaldsskólastigi en annað ekki, sé verið að festa enn frekar í sessi þá skipan að almennt bóknám á framhaldsskólastigi verði lánshæft fyrir suma nemendur en ekki aðra. Þetta segir einfaldlega hversu alvarlegt það er að meiri hlutinn skuli hafa hafnað beiðni okkar um að fá til ríkislögmann eða aðra sérhæfða í stjórnarskránni til að fjalla einmitt um þetta sem varðar stjórnarskrána, hvort verið sé að brjóta jafnræði á nemendum með þessu frumvarpi.

Ég ítreka það sem kemur hér fram að í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að væntanlega sé ein helsta sérstaða aðfaranáms umfram hefðbundið framhaldsskólanám lán lánasjóðsins til framfærslu og skólagjalda frekar en námið sjálft.

Tökum dæmi um lýsingu á vef Bifrastar — ágætur skóli, fínn skóli — þar sem verið er að fjalla um háskólagáttina. Þar eru kenndar þrjár kjarnagreinar, íslenska, stærðfræði og enska. Síðan eru fjórar áherslugreinar, bókfærsla, lögfræði, danska og heimspeki. Ég veit ekki betur en þetta sé hefðbundið bóknám við íslenskan opinberan framhaldsskóla.

Við í minni hlutanum höfnum því einfaldlega að námi sem er í reynd á framhaldsskólastigi í einkareknum skólum sé hampað á þennan hátt um fram nám í opinberum framhaldsskóla. Lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eru hugsuð til að tryggja jafnræði nemenda til náms, en ekki til að viðhalda hugmyndafræði um svokallað „fjölbreytt“ rekstrarform í skólakerfinu. Við sjáum einfaldlega hér, að mati minni hlutans, að sveltistefna ríkisstjórnarinnar gagnvart opinbera framhaldsskólakerfinu birtist enn á ný í þessu frumvarpi.

Í frumvarpinu lagði ráðherra jafnframt til að auka enn á ójafnræði nemenda með því að banna lánveitingar vegna aðfaranáms erlendis. Í umsögn Sambands íslenskra námsmanna erlendis kemur fram að margir nemendur hafi nýtt sér þennan möguleika, t.d. nemar í byggingartæknifræði í Danmörku.

Við lýsum líka yfir miklum áhyggjum af því hversu óskýr lagaumgjörðin almennt er utan um aðfaranámið og frumgreinakennsluna. Það kann að vera, það kom fram við umræðu í nefndinni, að nemendur átti sig hugsanlega ekki á að aðfaranámið felur ekki í sér almenn réttindi til inntöku í háskóla, líkt og stúdentspróf gerir, heldur eru réttindin til náms á háskólastigi bundin við viðkomandi háskóla eða byggð á samningum við einstaka háskóla. Þannig getur nemandi verið búinn að greiða umtalsverða upphæð fyrir nám á framhaldsskólastigi til að öðlast réttinn til að fara í háskóla en uppgötvar svo að námið uppfyllir ekki inntökuskilyrði þess náms sem hann eða hún vill fara í að aðfaranáminu loknu.

Við tökum því undir tillögur meiri hlutans um að fella bráðabirgðaákvæði frumvarpsins á brott.

Til að mæta þessum áhyggjum okkar og koma til móts við þær athugasemdir sem birtust í þessum skýrslum Ríkisendurskoðunar leggjum við til ákveðnar breytingartillögur. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um mikilvægi þess að koma til móts við þá nemendur sem af einhverri ástæðu hafa ekki lokið námi á framhaldsskólastigi og gera það þannig að komið sé jafnt fram við alla sem hyggjast ljúka námi þar til þess að þeir geti farið inn í háskóla. Við leggjum því til eftirfarandi breytingu:

„Sjóðnum er heimilt samkvæmt nánari fyrirmælum í úthlutunarreglum að veita námsmönnum námslán til aðfaranáms, allt að 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum, sé námið samþykkt af ráðherra.“

Hér er einfaldlega verið að leggja til að framhaldsskólar landsins, hringinn í kringum landið, geti líka boðið upp á aðfaranám eða frumgreinakennslu sem verður lánshæf gagnvart lánasjóðnum. Ég vænti þess að þar muni menn ekki vera að borga jafnvel hundruð eða þúsund eða milljónir í skólagjöld.

Við leggjum líka til að breyta lögum um háskóla þannig að það sé skýrt að aðfaranámið feli í sér þau réttindi sem þarf til þess að fara inn í háskóla þannig að öllu aðfaranámi ljúki með stúdentsprófi.

Undir þetta álit skrifa Eygló Harðardóttir, sem framsögumaður og hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Guðjón S. Brjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Ég vona svo sannarlega að þessar breytingartillögur verði samþykktar þannig að við getum tryggt að við mismunum ekki skólum sem ætla að bjóða upp á almennt bóknám á framhaldsskólastigi; að hægt sé að fara í þetta nám hringinn í kringum landið en ekki bara hér á suðvesturhorninu eins og þetta hefur verið þó að skólarnir hafi margir hverjir boðið upp á ágætt eða fjar- og dreifnám; að við snúum einfaldlega af þessari braut sem við sjáum hér aftur og aftur þar sem ráðist er harkalega að okkar ágætu opinberu framhaldsskólum.