146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hér sé verið að bregðast við, það kemur fram í greinargerðinni, við því hvernig hlutirnir hafa verið gerðir. En þegar við fáum alvarlegar ábendingar, ítrekaðar ábendingar, frá Ríkisendurskoðun um að það verklag sem hefur viðgengist sé ekki í lagi er það tillaga ráðuneytisins að festa það í sessi í staðinn fyrir að fylgja þeim tillögum sem Ríkisendurskoðun kom þó með. Hún kom með tillögu um að hætta lánveitingum eða tryggja að jafnræði væri með nemendum sem stunda almennt bóknám á framhaldsskólastigi. Við erum einfaldlega að setja það inn að ráðherrann hafi heimild, með samþykki ráðherra að sjálfsögðu, til að ramma af hvaða hæfnisþrep við erum að tala hér um. Það segir líka að þú þurfir að vera búinn að ljúka ákveðnum fjölda af framhaldsskólaeiningum til að það geti flokkast sem aðfaranám. En við erum einfaldlega að fylgja því eftir sem Ríkisendurskoðun lagði til fyrir þó nokkuð mörgum árum.

Það má því segja að það sé stórundarlegt að menn skuli koma hingað inn með þessa tillögu nema, eins og við bendum á, að það sé hluti af aðför ríkisstjórnarinnar að opinbera framhaldsskólakerfinu eins og það hefur endurspeglast í áformum án nokkurs rökstuðnings varðandi sameiningu á mjög vel reknum opinberum skóla við einkaskóla. Enn á ný er komið með þetta þegar einfaldlega er hægt að segja: Við ætlum að koma eins fram við alla nemendur sem fara í sambærilegt nám til þess að þeir geti lokið réttindum til að geta haldið áfram í námi.

Hér er talað um grundvallarbreytingu; ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður sé ekki að segja að það sé grundvallarbreyting að við komum jafnt fram við fólk í sambærilegri stöðu. Það er undirstaða stjórnarskrárinnar.