146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég má til með að taka undir með öðrum ræðumönnum og þátttakendum í minnihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli. Mig langaði aðeins að koma inn á bókun minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í málinu og viðhorf alla vega þeirrar sem hér stendur gagnvart þeim spurningum sem vakna um hvort þetta frumvarp, eins og það er lagt fram, standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Hv. þm. Pawel Bartoszek kom inn á það áðan að þær breytingartillögur sem minni hlutinn legði til væru með þeim hætti að um eðlisbreytingu á núverandi fyrirkomulagi væri að ræða. Gott og vel, vissulega erum við með breytingartillögur og við erum að leggja til að farið verði öðruvísi að þessu en meiri hlutinn leggur til. Einnig minntist hv. þingmaður á að fram hefði komið í meðförum málsins hjá nefndinni að mögulegt væri að ekki yrði lengur veitt lán hjá LÍN til aðfaranáms nema að lagastoð fengist frá Alþingi.

Mig langar að staldra aðeins við áður en ég kem að bókuninni sem hv. þingmaður var svo góður að lesa upp áðan og ég þarf ekki að endurtaka alveg strax.

Varðandi þessi tvö mál er í fyrsta lagi 40 ára gömul hefð fyrir því hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna að lána fyrir aðfaranámi. Það hefur svo sem verið farið ágætlega yfir það hvernig sú hefð hefur myndast, en aftur á móti hefur sú hefð ekki haft lagastoð heldur hefur verið við lýði án hennar. Eins og við vitum er það þannig að þegar framkvæmdarvaldið hefur framkvæmt eitthvað án lagastoðar í langan tíma geta myndast væntingar um að framkvæmdarvaldið haldi því áfram. Því geta þeir sem verða síðan fyrir því fá ekki sömu meðferð frá framkvæmdarvaldinu, sem hafði ekki lagastoð áður og ætlar núna að hætta að veita lán af því hún hefur ekki lagastoð, álitið það mismunun og brot á stjórnsýslulögum eða stjórnsýslurétti. Þetta finnst mér áhyggjuefni, frú forseti. Það er ekki til eftirbreytni að opinberar stofnanir geti komið til ráðuneyta og hótað því að ætla að haga stjórnsýsluháttum sínum einhvern veginn öðruvísi til þess að ná fram vilja sínum, þ.e. að stofnun hætti að veita ákveðna þjónustu sem hún hefur veitt til þess að þvinga fram ákveðna niðurstöðu á löggjafarþingi Íslendinga. Mér finnst það ekki boðleg vinnubrögð (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og ég hef áhyggjur af því að það standist ekki stjórnskipunarréttarfar okkar.

Þetta er eitt. Ég hef sem sagt ekki áhyggjur af því að ef þessi lagastoð kemur ekki til sé LÍN í einhverjum rétti til að hætta að lána í þetta aðfaranám. Þess vegna sé ég ekki af hverju okkur liggur svona á. Mér finnst ekki að Alþingi Íslendinga eigi starfa undir hótunum um það að þá hætti Lánasjóður íslenskra námsmanna að lána til aðfaranáms eins og hann hefur gert í 40 ár án lagastoðar.

Svo er það annað, um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég er ekki sannfærð um það að ef við ætlum að lögfesta þessa framkvæmd, sem var mögulega aldrei raunverulega í samræmi við stjórnarskrá, ég veit það ekki, ég er enginn sérfræðingur á því sviði, en eins og þetta horfir við mér þá vekur það upp verulegar efasemdir ef við ætlum að heimila lánasjóðnum að veita lán, við ætlum að gefa lánasjóðnum þessa lagastoð og við ætlum að setja í lögin okkar að sumir skólar sem veita ákveðna þjónustu séu lánshæfir á meðan aðrir skólar sem veita sambærilega þjónustu séu ekki lánshæfir. Eini munurinn er hvort um einkaskóla eða opinbera skóla er að ræða. Hugsum okkur líka muninn, það kostar rosalega mikið að fara í einkaskóla, þar eru skólagjöld og það fást meira að segja lán fyrir þeim, hinir skólarnir eru ekki með svona há skólagjöld en fela þar með samt ekki í sér framfærslulán frá LÍN.

Mér finnst allrar umhugsunar vert hvort slík framkvæmd brjóti á jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Út á það gengur bókun minni hlutans. Út á það ganga hugleiðingar okkar og beiðni okkar um að fá álit ríkislögmanns á því hvort fyrirhuguð lagasetning brjóti á jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Ég skal ítreka það að auðvitað hefur verið orðið við þeirri beiðni okkar að senda spurningar til ríkislögmanns þar um. Aftur á móti sneri bókunin að því að ákveðið var að bíða ekki eftir áliti ríkislögmanns. Eins og fram kom í máli hv. þm. Pawels Bartoszeks sér hann ekki tilefni til þess að bíða eftir álitinu áður en málið er afgreitt, hvort hann átti við afgreitt út úr nefnd eða afgreitt út úr þingi veit ég ekki, ég veit hins vegar að við höfum hug á að fá þetta álit áður en við sjáum okkur fært að veita þessu máli einhvers konar framgöngu á þingi.

Eins og kemur fram í bókuninni finnst okkur mikilvægt að komi upp efasemdir um hvort lagasetning standist stjórnarskrá sé það á ábyrgð hvers þingmanns fyrir sig að tryggja að svo sé. Það er algjörlega í samræmi við drengskaparheit okkar að stjórnarskránni. Út á það gengur þessi bókun og út á það gengur minnihlutaálitið að hluta til. Það byggir á tveimur mjög mikilvægum reglum sem við höfum í réttarfari okkar, það er lögmætisreglan og það er jafnræðisreglan og það að lík mál skuli meðhöndluð líkt og ólík mál ólíkt. Ef við erum með sambærilegt nám sem fær ekki sambærilega meðferð þegar kemur að nemendum vakna upp efasemdir um hvort jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sé framfylgt með þessum lögum.

Svo erum við með lögmætisregluna. Við erum náttúrlega í vissum vanda stödd. Allar aðgerðir stjórnvalda eiga að vera byggðar á lagastoð. Stjórnvöld verða að hafa heimild til þess í lögum að aðhafast eitthvað. Því er mjög oft gleymt á Íslandi, en svona er þetta samt. Þetta er búið að vera svona í 40 ár, ég segi það bara. Stjórnskipunarréttur og jafnræðisreglan gera það samt að verkum að þegar framkvæmdarvaldið lætur sér ekki segjast og framkvæmir hluti þrátt fyrir að lagastoð vanti þá getur myndast ákveðin venja og fólk getur farið að líta á það sem lagastoð.

Það er margt í þessu. Mér finnst fullt tilefni til að bíða álits ríkislögmanns á því hvort þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrá og mér finnst líka fullt tilefni til þess að samþykkja breytingartillögu minni hlutans í þessu máli.