146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka, af því að það kom fram eins og það hefði bara gerst núna, að við urðum við þeirri beiðni 10. maí sl. að fá álit ríkislögmanns og með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna í þá beiðni til ríkislögmanns:

„Allsherjar- og menntamálanefnd er með til umfjöllunar 392. mál, Lánasjóð íslenskra námsmanna, lánshæfi aðfaranáms. Á fundi nefndarinnar 10. maí sl. kom fram sú ósk um að fá minnisblað eða álitsgerð frá ríkislögmanni um hvort hann telji ákvæði frumvarpsins fara í bága við ákvæði 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944, þ.e. jafnræði til náms, þá sérstaklega gagnvart nemum í framhaldsskólum sem eru ekki í aðfarahæfu námi.“

Ég heyri það sem hér er sagt, en ég ítreka að hér er einungis verið að setja lagastoð og er meira en tilbúin til að ræða um menntamálin og stefnu er varðar námslán og fleira þegar við förum í heildarendurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og hlakka til þess í haust.

Svo það komi fram þá er ranglega farið með nokkra hluti. Aðfaranám er skilgreint og er á ábyrgð háskóla sem er sniðið að inntökuskilyrðum að ákveðnum námsbrautum. Háskólar geta gert samninga við hvaða framhaldsskóla sem er um að bjóða upp á aðfaranám fyrir háskóla. Það stendur háskólum til boða og þeir geta gert samninga við alla þá framhaldsskóla sem þeim hugnast.

Þá kannski rétt í lokin. Við tökum þetta mál aftur inn í nefndina og ræðum það sjálfsagt. En ég get ekki orða bundist vegna orða hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur varðandi meinta 25 ára reglu. Það er engin 25 ára regla. (Gripið fram í.)Það er forgangsregla sem samþykkt var af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem var þáverandi menntamálaráðherra og það er nægt rými fyrir alla nemendur í framhaldsskólakerfinu óháð aldri. Framlög á nemendaígildi í framhaldsskóla eru ekki aldurstengd. Því er ekki um að ræða að það sé ekki greitt fyrir alla nemendur skólanna. Þessi ranga og villandi umræða hefur skaðað af því að fólk heldur að framhaldsskólinn sé ekki opinn og sækir ekki um, af því að þetta er röng umræða.

Það er rangt að skólarnir og framhaldsskólarnir séu ekki opnir. Þeir eru galopnir fyrir nemendum 25 ára og eldri. Ég hef talað við rektora sem þykir umræðan miður af því að þeir fá ekki jafn margar umsóknir. Skólarnir eru galopnir fyrir nemendunum og hafa pláss fyrir þá. Þessir nemendur eru aftar í röðinni samkvæmt forgangsreglu sem var samþykkt af menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur og komast þá kannski ekki inn í einhverja skóla vegna þessara forgangsreglna. Það reynir á þær mjög sjaldan af því að það eru einungis örfáir skólar þar sem samkeppni er það gríðarlega mikil.

Það er rangt að ekki sé greitt fyrir 25 ára og eldri nemendur. Það er rangt að ekki sé nægt rými fyrir þá í framhaldsskólum og skólarnir séu einhvern veginn lokaðir fyrir þeim. Mér þykir það miður. Þessi umræða snertir svo sem ekki þetta frumvarp svo mikið, en það er sjálfsagt að svara þessu. Við tökum málið þá aftur til allsherjar- og menntamálanefndar eftir 2. umr.