146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki á þessa breytingu sem breytingu á lánunum sem slíkum eða lánafyrirkomulaginu heldur ítrekun á þeim réttindum sem nemendur vinna sér inn með þeim einingafjölda sem þeir hafa klárað. Málið er augljóst bara í útreikningum séð, 200 einingar kláraðar, 200 framhaldsskólaeiningar kláraðar samkvæmt LÍN og öllu. Það breytir engu um lánshæfið, það færi ekkert lánshæfi yfir á framhaldsskólann sérstaklega út af þessu. Það fylgir áfram aðfaranáminu. Síðan er hin spurningin hvort það stangist á við jafnræðisregluna eða ekki. Það er þá bara önnur spurning að svara, hvort það sé nauðsynlegt að færa lánafyrirkomulagið burt frá aðfaranáminu og yfir á alla sem eru á því stigi.

Þetta snýst bara um það að lög um aðfaranám séu skilgreind á þann hátt að þegar maður lýkur þessum 200 eininga pakka þá er það jafngildi þess að klára stúdentspróf. Því fylgir ýmislegt jákvætt eins og ákveðið faglegt ferli varðandi vottun á námsbrautum og því um líkt sem er mjög eðlilegt að taka tillit til.