146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert viss um að það sé slæm hugmynd að ljúka aðfaranámi með stúdentsprófi, en við verðum að átta okkur á hvernig það aðfaranám er sem við lánum til í dag. Það er t.d. aðfaranám sem er undirbúningsnám fyrir ákveðna læknaskóla erlendis. Á því að ljúka með stúdentsprófi? Nei, við getum ekki þvingað einhverja skóla erlendis sem bjóða upp á aðfaranám að það gildi til að ljúka stúdentsprófi, en hérlendis þurfum við kannski að skoða málin betur. Aðfaranám í dag er oft þannig að það gildir einungis fyrir þann háskóla sem maður tekur aðfaranámið til. Ef við viljum breyta því í heildina þá erum við auðvitað að breyta því þannig að það verður ekkert aðfaranám sem gildir einungis í einn skóla, heldur erum við að tala um stutt stúdentspróf, einhvers konar flýtileið, sem gildir þá inn í alla skóla. Ég er ekki alveg viss um hvernig við eigum að fara að þessu. (Gripið fram í.)Við þurfum auðvitað bara að skoða þetta. Ég held að það skipti ekki öllu máli að gera það nákvæmlega núna því að það væru stærri breytingar. Þá værum við t.d. að sleppa því að lána þeim sem eru í aðfaranámi erlendis fyrir læknaskólana sem eru helstu lánin sem við veitum í dag til námsmanna erlendis í aðfaranámi. Þannig að ég tel þetta ekki mikilvægt í þessa umræðu, en finnst mikilvægt að við ræðum aðfaranám í heild sinni þegar við förum í endurskoðun á lögunum.