146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get eiginlega ekki annað en komið í andsvar við hv. þingmann. Þó að hún sé búin að segja það nokkuð oft hér í pontu Alþingis að það sé engin 25 ára regla, þá er það svo. Þegar fjárveitingar eru takmarkaðar til framhaldsskóla þá er það svo. Ef nemendum 25 ára og eldri fækkaði um 742 milli áranna 2014 og 2015, þá er það af einhverjum ástæðum. Það er alveg á hreinu. Það er vegna þess að þá er tekin pólitísk ákvörðun af hálfu Illuga Gunnarssonar þáverandi menntamálaráðherra sem hann stóð við hér í þinginu. Hann var ekkert að fara í neinar grafgötur með það. Hv. þingmaður hefur sagt það sjálf að það þurfi bara að forgangsraða betur. Við þurfum þá að skoða það. Hv. þingmaður hefur líka lýst því yfir hér í sérstökum umræðum um þetta mál að henni finnist ekki endilega eðlilegt að nemendur 25 ára og eldri séu í framhaldsskólum með öðrum nemendum. Fyrrverandi ráðherra vildi finna önnur úrræði. Ég heyri ekki betur en hv. þingmaður hafi tekið undir það.

Þetta snýst um fjársvelti framhaldsskólanna. Þetta snýst um það að núna erum við að fjalla um fjármálaáætlun sem skilar ekki inn til skólanna því sem þeir áttu að fá. Það er niðurskurður til framhaldsskólanna miðað við það sem þeir áttu að fá sem viðheldur þessari stefnu. Þannig að halda öðru fram en því að 25 ára og eldri eigi ekki greiðan aðgang inn í skólana, nema vissulega inn í verknámið, þar var þetta ekki sett, við erum að tala um bóknámið, er ekki rétt, það er þannig. Hvort sem þingmaðurinn vill gangast við því eða ekki. Hafandi unnið inni í þessu kerfi, það hef ég gert, ég held ekki að hv. þingmaður hafi gert það, þá veit ég þetta. Þó að einhverjir rektorar hafi sagt henni eitthvað annað þá má vel vera að einhverjir skólar geti tekið við nemendum, þeir hafi til þess fjármagn, en þeir eru ekki margir.