146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Já, það er akkúrat þetta sem ég sagði. Þessir á áttunda hundrað nemendur sem hefur fækkað á milli ára, langaði þá ekkert í skóla? Hvers lags málflutningur er þetta? Þetta er ekki bjóðandi. Það að einhverjir vilji fara í fullorðinsfræðslu, það kostar. Það kostar meira og það er akkúrat það sem við höfum alltaf verið að tala um. Það er verið að auka bilið á milli þeirra sem kjósa að sækja sér nám, samanber þetta frumvarp sem hv. þingmaður er að tala hér fyrir.

Öðruvísi nám. Sitja á skólabekk. Nú verð ég að taka undir með þeim sem sendu umsögn af hálfu Tækniskólans. Á hvaða aldri er hv. þingmaður? Ég kem úr Menntaskólanum á Tröllaskaga sem er mjög framsækinn skóli. Þar þarftu ekkert endilega að sitja á skólabekk. Þú getur komið og farið nánast eins og þú vilt. Þú getur verið í fjarnámi, getur komið inn í skólann þegar hentar og allt það. Það er einfeldni að halda því fram að fullorðið fólk hafi ekki val um að fara inn í framhaldsskólann nema sitja þar allan daginn. Það er kjánalegt að segja svona vegna þess að þetta er ekki eins og staðan er í dag.

Hv. þingmaður getur ekkert horft fram hjá því að aukin framlög sem hafa verið ætluð og eru ætluð núna til framhaldsskólans eru vegna þess að nemendum fækkar. Það er ekki bara náttúruleg fækkun. Það er vegna þess að það er minna aðgengi. Við þurfum líka að horfa til þess, af því að hér höfum við verið að tala um sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautarskólans við Ármúla, að það eru tvö ár sem við þurfum að standa af okkur fækkun nemenda. Svo fjölgar aftur.

Frú forseti. Þessi málflutningur sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar reynir ítrekað að halda fram til að verja sig og málstað hægri stefnunnar um að það sé jafnt aðgengi fyrir alla í skólana, er ekki staðreynd. Tölurnar segja annað. Fækkun nemenda segir annað. (Forseti hringir.) Við getum ekki horft fram hjá því.