146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Henni finnst kannski kjánalegt að það sé fólk sem horfir öðruvísi á málin, þá er það bara svo. (Gripið fram í: … staðreynd.) Ég segi það nú hér að 25 ára og eldri nemendur eiga að hafa val, þeir eiga að hafa val um að hvernig þeir mennta sig, hvort þeir fara í framhaldsskóla eða hvort þeir (BjG: Þeir hafa ekki val, um það snýst málið.) fari í aðfaranám

(Forseti (NicM): Ræðumaður hefur orðið.)(Gripið fram í.)

(Forseti (NicM): Ræðumaður er með orðið.)

Ég er með orðið.

(Forseti (NicM): Ró í salnum.)

Þeir eiga að hafa val um það. Til þess verðum við að styðja þá og umræða um það að þeir komist ekki inn í námið veldur skaða, þeir sækja minna um.

Við þurfum að líta til þess, af því að hv. þingmaður nefnir að þeim hafi stórlega fækkað í framhaldsskólum: Við hvaða ár er hún að miða? Hún er að miða við ár þar sem var mikið atvinnuleysi, þar sem fólk leitaði mikið (Gripið fram í.)í skóla, mikið í nám …(Forseti hringir.)

(Forseti (NicM): Forseti biður …)(BjG: Það var ekki atvinnuleysi 2014 og 2015.)(Forseti hringir.)

(Forseti (NicM): Forseti óskar eftir ró í salnum. Ræðumaður er með orðið.)

Það var mikið atvinnuleysi og fólk leitaði frekar í nám sem er gott, en í dag þar sem við búum við eiginlega ekkert atvinnuleysi leitar fólk að sjálfsögðu minna í skólana. (Gripið fram í: Ég hélt að Bjarni … atvinnuleysi 2014. Var hann að ljúga þá eða þú núna?)