146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[19:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég get auðvitað ekki setið undir því að ég sé að fara með fleipur. Ég var ekki að tala um árin eftir hrun. Ég nefndi sérstaklega árin 2014 og 2015 þar sem nemendum 25 ára og eldri hefði fækkað um á áttunda hundrað. Um það snýst málið og það á að fara rétt með.

Hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar getur ekki leyft sér að koma hér og halda því stöðugt fram, bæði hér og í fjölmiðlum sem hún kemur sér í til þess að ræða þessi mál, að það sé ekki takmörkun á aðgengi og að nemendum hafi ekki fækkað þess vegna. Það er ekki rétt. Staðreyndin hefur komið fram í skriflegu svari frá fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Hv. þm. Oddný Harðardóttir fékk ítarleg svör við spurningum um þetta mál. Það hefur verið rætt í sérstökum umræðum oftar en einu sinni, bæði á síðasta þingi og nú, þannig hv. þingmaður getur bara leitað sér upplýsinga ef hún telur að ég fari hér með rangar tölur. Hún vitnar hins vegar í einhver allt önnur ár en ég nefndi.