146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[19:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir orð hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Það er grafalvarlegt mál að standa í pontu Alþingis og fara með fleipur. Grafalvarlegt mál. Við erum ekki einhvers staðar úti í bæ að spjalla saman yfir kaffibolla. Þetta er málfundarstaður þjóðarinnar, Alþingi Íslendinga. Hér er talað eins og það hafi verið svona gríðarlegt atvinnuleysi. Atvinnuleysi árið 2014 var undir 5%, hv. þingmaður. Og að tala hér eins og 25 ára og eldri hafi ekki haft það val að sækja sér einhverja menntun annars staðar, hvers lags bull er þetta eiginlega? Það gátu allir náð sér í menntun sem þeir gátu borgað fyrir áður en þessi 25 ára regla var sett — regla sem þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, kallaði ítrekað 25 ára reglu hér í pontu. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður lætur eins og svo hafi ekki verið. Vill hv. þingmaður meina að fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, hafi ítrekað verið að ljúga (Forseti hringir.) að þingheimi þegar hann talaði um 25 ára reglu? Það á einfaldlega að segja satt. Fólk á að hafa þann manndóm (Forseti hringir.) í sér að geta staðið með sínum skoðunum.