146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um gerð heilbrigðisáætlunar. Það er sameiginlegt nefndarálit frá öllum hv. þingmönnum sem sæti eiga í velferðarnefnd Alþingis.

Nefndin fjallaði um málið og fékk marga góða gesti á sinn fund, m.a. gesti sem komu frá Alþýðusambandi Íslands, frá Landspítalanum og síðan bárust umsagnir frá nokkrum aðilum um málið. Voru þær mjög jákvæðar í garð þessa máls.

Markmið með þessari þingsályktunartillögu er að vinna að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Undanfarið hefur samfélagið kallað á bætt heilbrigðiskerfi og var það mjög áberandi í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Ákall til samfélagsins sýnir fram á mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fé til málaflokksins en með markvissum hætti. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er vitnað í McKinsey-skýrsluna sem kom út árið 2016 þar sem fram kemur að heildarframlög til heilbrigðismála á Íslandi árið 2014 hafi verið lægri en annars staðar á Norðurlöndum, að Finnlandi undanskildu.

Á fundum nefndarinnar með gestum kom til umræðu heilbrigðisáætlun til ársins 2020, sem er í vinnslu hjá velferðarráðuneytinu. Hér er um að ræða drög að heilbrigðisstefnu eða áætlun sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Hún kom þó aldrei fyrir hv. Alþingi en var reyndar lögð fram til kynningar á vef ráðuneytisins. Helsta gagnrýni gesta var sú að lítið samráð hefði verið haft við fagaðila við gerð þeirrar áætlunar innan ráðuneytisins. Nefndin leggur áherslu á að ríkt samráð verði haft við fagaðila innan heilbrigðiskerfisins við vinnslu heilbrigðisáætlunar í ráðuneytinu. Það er mat nefndarinnar að fagfólk hafi góða yfirsýn yfir málaflokkinn og þekki best til veikleika og styrkleika viðbúnaðar.

Eins og ég sagði áðan voru drög að heilbrigðisáætlun unnin á síðasta kjörtímabili lögð fram til kynningar á vef ráðuneytisins en þau komu ekki fyrir hv. Alþingi. Þegar við sáum þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra var heilbrigðisáætlun ekki á þeirri skrá. Því ákváðum við, hv. þingmenn Framsóknarflokksins, að leggja fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisáætlun sem fór til velferðarnefndar snemma á þessu þingi til efnislegrar umræðu. Eins og ég sagði áðan standa allir hv. þingmenn í velferðarnefnd að þessu nefndaráliti með breytingartillögum.

Flestir umsagnaraðilar voru á þeirri skoðun að hraða bæri málinu eins og unnt væri. Nefndin tekur undir þau orð og leggur til að tillögugreininni verði vísað í þá vinnu sem nú er unnin innan ráðuneytisins. Þá vill nefndin að Alþingi sé upplýst um framgang málsins. Að teknu tilliti til þess sem að framan segir leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingum og að tillögugreinin orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að halda áfram vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar og leggja hana fyrir Alþingi eins fljótt og mögulegt er. Í áætluninni verði verkferlar innan heilbrigðiskerfisins skýrðir og þar komi fram hvaða aðilar eigi að veita þjónustu innan kerfisins. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt. Áætlunin taki tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til búsetu verði einnig tryggt með öflugri utanspítalaþjónustu. Jafnframt verði tekið tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi og fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða. Í áætluninni komi einnig fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð þessarar heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Velferðarnefnd Alþingis verði reglubundið upplýst um framgang málsins.“

Fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið komi að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Markviss vinna að heilbrigðisáætlun hefjist strax á árinu 2017. Alþingi verði upplýst um framgang málsins eigi síðar en í upphafi haustþings 2017 og síðan með reglulegu millibili þar til verkinu er lokið.

2. Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um gerð heilbrigðisáætlunar.

Þetta er gert á Alþingi þann 5. maí 2017.

Undir þetta nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um gerð heilbrigðisáætlunar skrifa hv. þingmenn: Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar, Elsa Lára Arnardóttir, framsögumaður málsins, Birgir Ármannsson, Guðjón S. Brjánsson, Halldóra Mogensen, Hildur Sverrisdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Vilhjálmur Árnason.

Mig langar í örstuttu máli áður en ég lýk máli mínu að þakka öllum hv. þingmönnum velferðarnefndar Alþingis fyrir þá miklu og góðu vinnu sem átti sér stað varðandi málið innan hv. velferðarnefndar. Þetta var forgangsmál þingflokks Framsóknarmanna á þessum þingvetri. Það er afar ánægjulegt að sjá að það er komið á þennan stað og ég vona einnig að þingsályktunartillagan með þessari breytingartillögu nái fram að ganga svo stefnumótun eigi sér stað í þessum stóra og mikilvæga málaflokki sem heilbrigðismálin eru.

Við höfum öll orðið vör við umræðu í fjölmiðlum og í samfélaginu undanfarið sem sýnir fram á að stefnumótun er mikilvæg því að við verðum að ákveða og vita hvert við eigum að stefna. Þannig nýtum við fjármagn sem best og þannig getum við tryggt sem besta þjónustu fyrir íbúana í okkar ágæta samfélagi. Og það er auðvitað það sem við verðum og eigum að hafa í huga þegar við vinnum að málum.

Ég hlakka til að hlusta á einhverja umræðu um þetta mál og þakka fyrir.