146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[19:23]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillögunni er ætlað að vinna að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland og segja má að landsmenn hafi hreinlega öskrað á bætt heilbrigðiskerfi fyrir síðustu kosningar. Við getum öll verið sammála um að þetta var stóra kosningamálið og allir lofuðu að gefa verulega í. En eins og fram kom hjá hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur þá eru heildarframlög til heilbrigðismála hlutfallslega lægri á Íslandi en í flestum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, og það er ekki bara mikilvægt að setja aukið fé í málaflokkinn heldur þarf að auka samráð við fagaðila við gerð heilbrigðisáætlunar. Það er fagfólkið sem hefur mesta yfirsýn og þekkingu til að meta veikleika og styrkleika kerfisins.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að verklag verði skýrt, þ.e. að í áætluninni komi skýrt fram hvaða aðilar eigi að veita hvaða þjónustu. Skilgreina þarf hvaða þjónustu Landspítalinn veitir, hvaða þjónustu á að veita á stofnunum á landsbyggðinni og hvaða þjónustu einkaaðilar geti sinnt ef það er það sem við viljum.

Það er öllum ljóst að við í Vinstri grænum viljum sjá heilbrigðiskerfi sem er rekið af sameiginlegum sjóðum en ekki af einkaaðilum sem greiða sér arð. Einkafyrirtæki sem fá greiðslur úr ríkissjóði geta ekki greitt sér arð. Það er einfaldlega illa farið með almannafé. Heilbrigðiskerfið á að byggja á samkennd samfélagsins þar sem allir borga með glöðu fyrir þá sem þurfa að nota en ekki heilbrigðiskerfi sem byggir á því að þeir borgi sem nota. Allir eiga sama rétt til heilsu og fólk á ekki að geta keypt sig fram fyrir röðina og fólk á rétt á bestu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Þess vegna er mjög mikilvægt að við gerð heilbrigðisáætlunar sé lagt mat á hvort þjónusta einkaaðila sé hagkvæm og æskileg.

Mikilvægt er að áætlunin tryggi að allir landsmenn standi jafnfætis þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að gera stórátak í geðheilbrigðismálum, ekki síst þegar kemur að ungu fólki. Framhaldsskólar landsins eru fullir af ungu fólki með geðræn vandamál og kerfið virðist hálf ráðalaust. Það er vöntun á úrræðum og langir biðlistar eftir nauðsynlegri aðstoð. Við erum að tala um vandamál eins og kvíða, þunglyndi, fíkn, félagsfælni, svo að eitthvað sé nefnt. Rannsóknir sýna að andleg veikindi eru ein helsta ástæða brottfalls nemenda úr framhaldsskólum og ungs fólks af vinnumarkaði.

Þjónusta geðlækna, sálfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt ekki til staðar í heilbrigðiskerfinu nema í einkageiranum og fæstir hafa efni á að nýta sér hana nema í gegnum félagslegt tryggingakerfi stéttarfélaganna, kerfi sem eru ekki í boði fyrir þá sem vegna veikinda sinna, aldurs eða náms hafa ekki getað verið virkir á vinnumarkaði í lengri tíma. Þeim hópi hafa stjórnvöld brugðist.

Taka þarf tillit til búsetu, fjarlægðar og samgangna. Sérfræðilæknar eru eðli málsins samkvæmt ekki alls staðar á landinu. Það hlýtur í mörgum tilfellum að vera ódýrara að flytja sérfræðinginn út á land með reglulegu millibili en að flytja alla sjúklingana til höfuðborgarsvæðisins. Það virðist hálf tilviljunarkennt hvaða sérfræðiaðstoð býðst á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að skilgreina hvaða grunnþjónusta á að vera á fjórðungssjúkrahúsinu svo að íbúar viti hvort og hve oft kvensjúkdómalæknirinn, öldrunarlæknirinn, bæklunarlæknirinn eða augnlæknirinn mætir á svæðið.

Gríðarlega mikilvægt er að huga vel að staðsetningu sjúkrabifreiða og aðgangi að sjúkraflugi. Við eigum frekar að fjölga sjúkrabílum en fækka þeim nú þegar umferð um landið hefur stóraukist. Nú stendur til dæmis til að leggja niður vakt sjúkraflutningamanna í Ólafsfirði. Það er með öllu óskiljanlegt. Svæðið er stórt og fjölgun ferðamanna er töluverð, einkum í útivist eins og fjallaskíðamennsku sem er áhættusöm. Taka þarf mið af breyttum veruleika sem birtist í heilbrigðismálum með fjölgun ferðamanna.

Sjúkraflug þarf að vera í góðu lagi. Nú er loksins verið að gera nauðsynlegar bætur við flugvöllinn á Norðfirði, en sú framkvæmd er að hluta fjármögnuð af heimafólki. Ónefndur læknir við umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað sagði að ef ekki væri fyrir styrki heimaaðila þá lægju sjúklingar á gólfinu og við værum að skera þá upp með hníf og gaffli. Það er ótækt að heilbrigðisþjónustan í landinu standi og falli með velvild styrktaraðila.

Ég tek undir breytingartillögu velferðarnefndar, einkum þar sem hún felur í sér áætlun um að hraða beri málinu og að verkferlar innan heilbrigðiskerfisins verði skýrðir.