146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[19:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að bera þessa áætlun fram. Hún hefur haft frumkvæði að því að fylgja þessu úr hlaði og fylgja þessu eftir í okkar góðu velferðarnefnd.

Heilbrigðisþjónustan er margþætt og flókin í okkar litla landi en talsvert víðfeðma. Landsmenn sitja ekki við sama borð eftir búsetu, það er nokkuð ljóst. Í gegnum hremmingar okkar undanfarin ár, allt frá því við biðum afhroð í efnahagshruninu 2008, fór landsbyggðin heldur halloka, eins og raunar heilbrigðisþjónustan almennt. Þessi heilbrigðisáætlun sem nú er mælt fyrir, þessi tillaga að þingsályktun sem við vonum að fái samþykki, er góð. Hún er viðleitni í þá átt að ramma inn, betur en við höfum kannski gert áður, þjónustuna á landsvísu, heilbrigðisþjónustu um allt land. Við viljum auðvitað veita eins góða þjónustu á landsbyggðinni og við mögulega getum við þær aðstæður sem við búum við núna, en það er stöðugt erfiðara að veita fullkomna sérfræðiþjónustu um allt land. Þó er viðleitni til þess. Tveir fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherrar hafa lýst því yfir að þeir vilji efla sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni, en það hefur gengið heldur treglega.

Sérfræðiþjónustu njóta fyrst og fremst höfuðborgarbúar. Ef horft er í tölfræði Sjúkratrygginga og Tryggingastofnunar má sjá að það eru margfalt fleiri Reykvíkingar sem sækja til sérfræðinganna og tíðni heimsóknanna er margfalt meiri en á landsbyggðinni. Ef maður horfir bara á þær tölur mætti halda að heilsufar höfuðborgarbúa væri hörmulegt. Það er sennilega ekki, heldur gerir þetta greiða aðgengi gæfumuninn. Sumir myndu segja að það væri orðinn hluti af neysluvenjum einstaklinga að sækja sér sérfræðiþjónustu. Enda nota menn orðið neysla í ýmsum tungumálum þegar um heilbrigðisþjónustu er að ræða. Það gerum við þó ekki á Íslandi.

Heilsugæslan er í þrengingum á landsbyggðinni. Við verðum að gera upp hug okkar um það hvernig við viljum standa að henni. Þessi heilbrigðisáætlun mun hjálpa til við það. Við verðum vör við að það fækkar í sumum byggðarlögum, það eru sameiningar sveitarfélaga. Á sama tíma aukast kröfur fólks um góða faglega þjónustu. Við erum miklu upplýstari og meðvitaðri um það en áður hvað er góð þjónusta, hvað er miðlungsgóð þjónusta og hvað er slök þjónusta. Landsbyggðarfólk gerir kröfu um mjög góða þjónustu. Hana eigum við að reyna að uppfylla eins og við mögulega getum.

Það sama á við um búnað heilsugæslustöðva. Þó að mannauðurinn sé okkar dýrmætasta eign er nauðsynlegt að hafa búnað á heilsugæslustöðvum við hæfi. Við höfum verið að fjalla um fjarlækningabúnað sem er mikilvægt atriði og hluti af því getur verið ýmiss konar tengdur búnaður eins og myndgreiningarbúnaður sem er þó fyrir hendi í sinni mynd á allflestum heilsugæslustöðvum. En menn eru farnir að gera miklu meiri faglega kröfu til myndatöku í slíkum tækjum. Við stöndum frammi fyrir því að eiga kannski erfitt með að manna það fagfólki alls staðar. Það má fara um þetta mörgum orðum.

Sjúkraflutningar hafa verið nefndir sem eitt af lykilatriðunum og það er auðvitað laukrétt. Það er verið að vinna að því að fækka stofnunum úti á landi, sameina, en þá er líka mjög nauðsynlegt að við höfum öfluga sjúkraflutningaþjónustu og góða þekkingu til staðar. Hún er löng saga þess að Rauði kross Íslands hefur staðið að sjúkraflutningum, þ.e. átt allar sjúkrabifreiðar í landinu, en það vill nú þannig til að ekki hafa náðst samningar milli Rauða kross og ráðuneytis um framhaldið. Síðustu tvö ár hefur Rauði krossinn ekki haft neinn samning við ráðuneytið um þetta. Sá þáttur er í uppnámi. Við vonum að góð lending náist í því, en það hefur verið mjög farsælt fyrirkomulag að Rauði krossinn væri í þessu samstarfi við ráðuneytið um þennan þátt.

Við eigum öflugar heilbrigðisstofnanir úti á landi. Þessar stofnanir eru sameign okkar allra, eign hins opinbera. Við eigum að standa vörð um þær. En það er ekki sjálfsagt að það geti orðið. Við heyrum ýmsar vangaveltur og ýmis plön þessi dægrin. Það vilja ýmsir upp á dekk. En vilji landsmanna er alveg ljós. Það hefur margoft komið fram í viðhorfskönnunum hverjum landsmenn treysta í því sambandi.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta öllu frekar. Ég árétta bara gleðina og ánægjuna yfir því að þessi áætlun skuli vera komin á þetta form. Vonandi verður þessi heilbrigðisáætlun til þess að þrýsta á um það að ráðuneytið gefi út öfluga heilbrigðisstefnu þar sem fleiri atriði verða tekin til skoðunar og skilgreind og að við eignumst mjög vel skilgreind landakort, eins og ég vil kalla það, um heilbrigðismál, um heilbrigðisþjónustu; hvernig við ætlum að standa að því að veita heilbrigðisþjónustu og, eins komið hefur fram hér, hverjum er ætlað að veita hvaða þjónustu, því að það hefur verið vandamál á landsbyggðinni hvert hlutverk heilbrigðisstofnana á að vera. Væntingarnar eru miklar, bæði frá hendi íbúanna og ef því er að skipta frá hinu opinbera sömuleiðis.

Ég tel að sú vinna sem nú er hafin í ráðuneyti, að sögn hæstv. ráðherra, muni skila okkur farsælli niðurstöðu.