146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[19:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum Framsóknarflokksins fyrir það frumkvæði að bera þessa þingsályktunartillögu hingað inn og segi af reynslu að hæstv. heilbrigðisráðherrum fyrr og nú veitir ekkert af brýningu. Ég var í þeirri stöðu á sínum tíma í miðju hruni að mér var ætlað að láta vinna heilbrigðisáætlun fyrir árið 2010–2020 og ég les í greinargerðinni að enn sé verið að vinna að þeirri áætlun, nú eru þrjú ár eftir af þeim tíma. Þannig að ég er alveg sannfærð um að þeir munu fagna þessu frumkvæði og þessari brýningu í ráðuneytinu.

Það er margt nýtt sem hér hefur verið nefnt og komið fram. Sérstaklega er lögð mikil áhersla á það núna að þétta samfelluna í þjónustunni um allt land og að hafa víðtækt samráð, bæði við notendur þjónustunnar og við hv. velferðarnefnd. Það er af ýmsu að taka og margt hefur verið nefnt hér.

Mig langar samt aðeins að gera að umtalsefni það sem ég nefndi hér í umræðum í gær um fyrirspurnir sem vörðuðu kynheilbrigði ungra kvenna aðallega, þ.e. þjónustuna við ungmennin okkar. Við hugsum á Íslandi gríðarlega vel um börnin okkar. Við verjum þau fyrir slysum og áföllum og verulega hefur dregið úr slysatíðni vegna eitrunar og sjúkdóma hjá yngstu aldurshópunum. En síðan töpum við ungmennunum okkar, við töpum þeim á einhvern hátt. Kannski er enn ríkjandi sá hugsunarháttur að þegar börn hafa náð 16 ára aldri séu þau orðin fullorðin og megi gera það sem þau vilja og þau taka sér kannski það bessaleyfi tveimur, þremur árum fyrr líka.

Það er búið að breyta lögræðisaldrinum, menn verða fullorðnir hér við 18 ára aldur. Ég ræddi það aðeins í gær hversu brött þau umskipti geta verið fyrir þá sem eru sjúkir. Ég ætla aðeins að nefna það að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO eru þeir einstaklingar sem hafa náð 23 ára aldri fullorðnir, ekki fyrr; þeir eru fullþroska, þ.e. þeir eru fullþroskaðir. Þetta kemur kannski einhverjum á óvart, en þannig er þetta og menn geta kynnt sér röksemdirnar fyrir því á heimasíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Þarfir þessa hóps frá 14–23 ára, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir sem ungmenni, fyrir heilbrigðisþjónustu eru auðvitað fjölbreyttar; eins margs konar og mennirnir eru margir. En í reynd eru þarfir þessa hóps aðrar en þarfir barna og þær eru líka aðrar en þarfir fullorðinna. Þess vegna hefur þróast í heilbrigðisþjónustunni tiltekin sérgrein í lækningum sem má kalla ungmennalækningar sem við höfum ekki sinnt sem skyldi hér á Íslandi.

Í gær voru liðin slétt fimm ár, 15. maí, frá því Alþingi samþykkti samhljóða ályktun um að skipa starfshóp til þess að vinna að bættri heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára. Sú ályktun hefur því miður ekki komið til framkvæmda. Það var lagt til að hópurinn legði sérstaklega fram tillögur að úrbótum, þetta væri aðgerðamiðuð vinna, og að auki yrði hópnum falið að undirbúa stofnun unglingamóttöku fyrir fólk á aldrinum 14–23 ára þar sem heilbrigðisþjónusta verði sniðin að þörfum þeirra. Þessar tillögur byggðu á niðurstöðum vinnuhóps sem skipaður var á árinu 2010 líklega, þar sem staða þessa hóps í heilbrigðiskerfinu var skoðuð sérstaklega. Það var margt sem var skoðað, lífsstíllinn og heilbrigði almennt, ofþyngd og offita, tannheilsa, geðheilbrigði, sjálfsvíg, sjálfsvígshugleiðingar, vímuefna-, fíkniefna- og áfengisneysla, slys og meiðsli, ofbeldi, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi, kynheilbrigði og kynhegðun, og ungt fólk með langvinna sjúkdóma og heilsuvanda.

Þessi vinnuhópur skilaði á sínum tíma 13 tillögum sem var fjallað um í hv. velferðarnefnd á árinu 2011 og 2012, ef ég man rétt. Það varð til þess að nefndin flutti sjálf þá þingsályktunartillögu sem ég hef hér nefnt og var fimm ára í gær, 15. maí.

Erindi mitt í þennan stól er að þakka fyrir það frumkvæði sem hér er sýnt. Ég held að það sé brýnt að unnin verði ný heilbrigðisáætlun fyrir Ísland, sú sem við eigum gilti til 2010, en við skulum líka líta aðeins í kringum okkur og taka nýja hugsun inn í þetta, eins og ég hef nefnt hér, hvað varðar ungmennin. Ég vil hvetja hv. velferðarnefnd, sem hefur unnið vel að þessu máli, til þess að taka þetta mál upp, skoða það og fylgja því eftir.