146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hingað upp í lok umræðunnar um þetta nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um gerð heilbrigðisáætlunar og ég þakka fyrir þessa góðu umræðu sem hefur átt sér stað um málið.

Mig langar aðeins að taka undir nokkur atriði sem hafa komið fram í umræðunni. Fyrst vil ég nefna það sem hv. þm. Ingibjörg Þórðardóttir talaði um í framsögu sinni, að það er rétt að öskrað var á bætt ástand í heilbrigðismálum í aðdraganda kosninga. Og það sem hún sagði að einnig þurfi að gera betur í ýmsum málum, eins og t.d. geðheilbrigðismálum. Þar held ég að við komum einmitt að kjarna málsins, að við þurfum að vinna mjög heildstæða stóra áætlun og horfa vítt, setja markmið, kostnaðargreina þau og fjármagna, af því að annars hefur plagg sem þetta, sama hversu góð markmiðin eru, lítið að segja ef fjármagnið fylgir ekki með.

Það kemur líka að því sem hv. þingmaður sagði varðandi geðheilbrigðismálin, þar komum við að náskyldum þætti heilbrigðisþjónustunnar, sem er kostnaður sjúklinga og mikilvægi þess að sálfræðikostnaður og kostnaður vegna sérfræðinga í geðheilbrigðismálum falli undir greiðsluþátttökukerfið. Fram kom í umsögn um ríkisfjármálaáætlun frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, sem sneri að velferðarhluta í hv. velferðarnefnd, að mikilvægt væri að tímasett áætlun yrði á gildistíma núverandi ríkisfjármálaáætlunar hvenær stigin yrðu næstu skref í þessum efnum.

Síðan vil ég taka undir það sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson lagði til í umræðunni, að við værum með mikilvægar öflugar heilbrigðisstofnanir víða um landið. Ég get auðvitað sagt það eins og við vitum að heilbrigðisstofnanir hafa margar hverjar gengið í gegnum sameiningar á undanförnum árum, og þá eiga þær að vera stærri. Markmiðið með þeim sameiningum var að gera þær öflugri til að taka á móti ýmsum verkefnum. Þá finnst mér við vera komin að næsta skrefi í þessum málum sem er þá að fela þeim verkefni og skilgreina hvaða sérstöðu þær hafa eða hvaða verkefni þær eiga að taka að sér.

Ég tek jafnframt undir orð hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar að mjög mikilvægt er að við höfum fyrir framan okkur kort um hvernig við erum með þjónustuna skilgreinda. Það er einn af þeim þjónustuþáttum sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetu, það horfir til hvaða þjónustu það og börn þess geta fengið ef veikindi herja á.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni og öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að við verðum að efla heilbrigðisþjónustuna úti um allt land því að þjónustan hefur færst mikið til höfuðborgarinnar. Um leið hefur umfang og álag aukist á okkar góða þjóðarsjúkrahús, Landspítalann. Því er mjög mikilvægt að við skilgreinum hvaða þjónustu eigi að veita víðast hvar um landið til þess m.a. að létta álaginu af þeirri bráðaþjónustu sem fyrir er á okkar góða sjúkrahúsi.

Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir nefndi jafnframt það ákall sem hefur verið varðandi stefnumótun og bætt ástand í heilbrigðismálum. Hún kom inn á það að þetta sé einn af þeim grunnþjónustuþáttum sem við horfum til. Tek ég undir það.

Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir vitnaði í McKinsey-skýrsluna, en hún var mikið notuð varðandi greinargerð að þessari þingsályktunartillögu þegar hún var lögð fyrir sem þingmál í vetur. Hún ræddi einnig mikið mikilvægi utanspítalaþjónustu, að læknar komi og sinni sjúklingum, t.d. úti á landsbyggðinni, komi á móts við einstaklinga sem þar búa svo þeir þurfi ekki alltaf að fara eftir þjónustunni til höfuðborgarinnar. Ég teldi það mjög mikilvæga bót. Hv. þingmaður kom jafnframt inn á ólík hlutverk heilbrigðisstofnana víða um landið, þar með það sem við nefnum í þessari heilbrigðisáætlun að þar starfar fagfólk sem hefur sérþekkingu á mjög mismunandi sviðum. Það er mjög mismunandi sérþekking innan Landspítala miðað við litla heilbrigðisstofnun einhvers staðar á landsbyggðinni.

Það er jafnframt rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að við búum við gjörbreytt ástand í heilbrigðismálum. Við höfum séð gríðarlega, ég ætla að leyfa mér að segja sprengingu í ferðamannaiðnaðinum hér á landi. Þar eru einstaklingar sem fara inn á heilbrigðisstofnanir okkar, þannig að horfa þarf til þess í stefnumótun.

Ég vil taka undir orð hv. þingmanna sem hafa talað um áhyggjur af sjúkraflutningum. Það er mjög mikilvægur og stór hlekkur í heilbrigðismálum og upp á öryggi og öryggiskennd einstaklinga sem búa þar sem ekki alla þjónustu er að finna.

Mig langar einnig að nefna að mikilvægt er, eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni og í nefndarálitinu, að nýta auð sjúkrarými þar sem hægt og hagkvæmt er og tækifæri eru til á landsbyggðinni. Mig minnir að í skriflegu svari við fyrirspurn hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar hafi komið fram að ákveðnir aðgerðaflokkar væru töluvert ódýrari eftir því hvort þeir voru framkvæmdir á Sjúkrahúsinu á Akranesi eða Landspítalanum. Ég man ekki hvort jafnvel 18–20% verðmunur var þar á. Ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli, þannig að ég held að ég sé að fara með nokkuð rétt mál. Það er gott.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur talsverða reynslu af þessum málaflokki. Ég vil byrja á að þakka falleg orð í garð hv. þingmanna Framsóknarflokksins fyrir að leggja þessa tillögu fram, og til hv. þingmanna í velferðarnefnd. Hún kom einmitt inn á það að við höfum verið stefnulaus í málefnum heilbrigðisþjónustunnar frá 2010 og þar með það sem m.a. embætti landlæknis hefur komið fram með og ýmsir sérfræðingar, að við nýtum ekki fjármagnið sem skyldi þegar við höfum ekki stefnu, af því að við vitum ekki hvert við ætlum að fara. Það er miður.

Ég fagna jafnframt orðum hennar að brýna okkur til að vera með nýja hugsun, hugsa vítt, og ég þakka henni fyrir að minna okkur á tillöguna sem hún nefndi í ræðu sinni, um ungmennalækningar. Ég er þess fullviss að hv. þingmenn í velferðarnefnd séu tilbúnir að skoða málið. Það er mjög mikilvægt að hugað sé að þeim hópi, 14–23 ára.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa góðu umræðu. Ég vona svo sannarlega að þingsályktunartillagan og nefndarálitið sem við ræðum hljóti góðan framgang, að tillagan dagi ekki uppi innan ráðuneytis, heldur verði brýning eins og hefur komið fram í orðum hv. þingmanna og að hv. velferðarnefnd Alþingis fái upplýsingar um framgang málsins. Ég tel að með því ákvæði í nefndarálitinu og þá upplýsingaskyldu sem hæstv. ráðherra hefur gagnvart hv. velferðarnefnd aukist líkurnar á því að við náum að landa þessu skipi í höfn sem stefnumótun í heilbrigðismálum er. Takk fyrir umræðuna.