146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn sunnudag gerði ég það sem mér finnst skemmtilegast að gera, sem er að fara í bíltúr á Þingvelli og borga þar fyrir bílastæði og keyra svo til baka, eitthvað svoleiðis. Því að ég veit ekkert skemmtilegra en að borga fyrir notkun á umferðarmannvirkjum. Þannig maður er ég bara.

Þetta er nefndarálit um frumvarp um breytingu á lögum um umferðarlög, með síðari breytingum, sem fjallar um bílastæðagjöld. Í sem einföldustu máli snýst þetta frumvarp um að heimildir sem í dag eru fyrir hendi til að rukka fyrir afnot af bílastæðum í þéttbýli verði útvíkkaðar þannig að þær gildi einnig um dreifbýli. Að auki er lögð til víðtækari heimild til að nýta það fé sem þannig aflast.

Ef ég geri stuttlega grein fyrir því nefndaráliti sem meiri hluti nefndarinnar leggur til eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á 83. og 108. gr. umferðarlaga. Miða breytingarnar annars vegar að því að heimila gjaldtöku á bílastæðum utan þéttbýlis sem hingað til hefur aðeins verið heimil í kaupstað eða kauptúni og hins vegar að því að rýmka heimild til nýtingar þess fjár sem kemur til við gjaldtöku á bílastæðum við álagningu sekta.

Þær umsagnir sem nefndinni hafa borist eru almennt jákvæðar. Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna þó að með frumvarpinu sé sveitarfélögum veitt takmarkalaus heimild til gjaldtöku og gjaldtaka og skattheimta af ferðaþjónustu sé nýtt til uppbyggingar annarra innviða. Meiri hlutinn bendir af þessu tilefni á að þó svo að heimild til nýtingar fjár sem aflað er við gjaldtöku og sektun á stöðureitum sé rýmkuð með frumvarpinu sé það enn svo að féð skuli nýta til uppbyggingar í tengslum við viðkomandi bílastæði og þá þjónustu sem veitt er í kringum það. Það er einkum til að fjármagna innviðauppbyggingu fyrir ferðamenn. Gjaldið sé eftir sem áður þjónustugjald en ekki skattur og það beri að nýta samkvæmt þeim reglum sem um slík gjöld gilda.

Nokkur umræða átti sér stað innan nefndarinnar um álagningu gjalds vegna stöðubrota, nánar tiltekið um kröfu 2. mgr. 108. gr. umferðarlaga um að gjald skuli lagt á með skriflegri tilkynningu sem fest skuli við ökutæki og um hvaða aðilar hefðu heimild til að annast álagningu slíks gjalds. Varðandi fyrra atriðið sýnir meiri hlutinn sjónarmiðinu skilning sem m.a. kom fram í umsögn Computer Vision og sambandsins um að ákvæði 2. mgr. 108. gr. sé barn síns tíma og þarfnist nútímavæðingar svo eðlileg þróun geti átt sér stað samfara tækniframförum. Þannig sé til dæmis álagning rafrænna sekta víða komin í gagnið í öðrum löndum. Meiri hlutinn telur mikilvægt að lagaákvæði standi ekki í veg fyrir eðlilegri þróun, framförum og nýsköpun að þessu leyti en leggur þó áherslu á að vandað verði til verka við breytingu á borð við þá að heimila rafræna álagningu sekta, ekki síst að vandaðra stjórnsýsluhátta verði gætt í hvívetna. Beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að málið verði tekið upp og tillaga gerð að lagabreytingu í þá veru sem hér hefur verið tíunduð.

Þess ber að geta, svo ég hoppi aðeins út úr álitinu, að komið hafa viðbrögð frá ráðuneytinu í þessa veru. Eins og ég las upp komu fram mörg sjónarmið í þá veru að rétt væri að búa þannig um hnútana að gjaldtakan gæti farið fram án þess að vera of íþyngjandi á hverjum stað fyrir sig. Ég veit til þess að uppi eru hugmyndir um greinar í þessa veru og legg ég því til að málinu verði vísað til nefndar á milli 2. og 3. umr. þar sem við getum skoðað þær hugmyndir í nefndum sem þar hafa komið fram og tekið til þeirra afstöðu. En allt annað sem varðar það að vandað skuli til verka stendur að sjálfsögðu áfram sem og þær athugasemdir sem komu fram um að verði slíkt tekið upp þarf að gæta vel að persónuverndarsjónarmiðum sem og huga að því að slík breyting myndi líka geta átt við hér á höfuðborgarsvæðinu, sem myndi þá breyta mjög eðli þess. Fyrst um sinn þykir rétt að stíga varlega til jarðar en að sjálfsögðu tökum við við ábendingum og það er enn tími til að vinna að þessum málum.

Svo ég haldi áfram að lesa upp úr nefndarálitinu, segir þar að samhliða þeirri skoðun verði kannað hvort lagabreytingar sé þörf til að heimila álagningu stöðubrotsgjalda utan þéttbýlis vegna annarra stöðubrota en brota á gjaldskyldu, samanber ákvæði í umsögnum Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar um.

Varðandi seinna atriðið, um það hvaða aðilar hafi heimild til álagningar stöðubrotsgjalda, vill meiri hlutinn árétta þann skilning sinn að sveitarfélag geti falið öðrum starfsmönnum sínum en sérstökum stöðuvörðum að annast slíka álagningu. Þá vill meiri hlutinn einnig taka undir þann skilning sem kemur m.a. fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að gjaldtökuheimild sú sem í frumvarpinu felst einskorðist ekki við landsvæði í eigu sveitarfélaga heldur nái jafnframt til ferðamannastaða sem eru í umsjá sveitarfélags.

Meiri hlutinn styður framgang frumvarpsins og telur að með því sé stigið mikilvægt skref í átt að því markmiði að tryggja sveitarfélögum sanngjarnar og nauðsynlegar tekjur af auknum ferðamannastraumi svo þau verði betur í stakk búin til að sinna aukningunni og þeirri nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem hún krefst. Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita hv. þingmenn: Valgerður Gunnarsdóttir, formaður, Pawel Bartoszek, framsögumaður, Ásmundur Friðriksson. Bryndís Haraldsdóttir, Einar Brynjólfsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Teitur Björn Einarsson.