146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja með vil ég taka fram og undirstrika þann skilning sem hv. þingmaður hefur einnig að þær tekjur sem skapast í þessu frumvarpi má einungis nota til að byggja upp bílastæði og salerni í tengslum við þau og það allra næsta sem þar liggur. Það eru engu að síður ákveðnir innviðir þannig að þetta hjálpar til við uppbyggingu innviða, en auðvitað einungis þeirra innviða.

Til að svara seinni hluta spurningarinnar beint ætla ég að leyfa mér að taka af mér hatt framsögumanns meiri hlutans, þótt mér líði ansi vel með þann hatt, og svara spurningunni út frá mínum eigin skoðunum: Já, ég myndi persónulega telja að æskilegt væri að geta nýtt víðtækari bílastæðagjöld. Þá þyrfti það hugsanlega að vera í formi einhvers konar skatts, í öðru formi, til þess að leggja þau á á hverjum stað fyrir sig og nota í uppbyggingu, hvort sem er á hverjum stað fyrir sig eða í einhverju öðru samhengi. Það er mín persónulega skoðun. Ég væri vel til í slíka gjaldtöku sem væri með víðtækari heimild. En það er klárlega ekki efni þessa frumvarps.