146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að segja nei við heildstæðri stefnumótun. En ég ætla að fara að venja mig á að gera það af og til, bara vegna þess að það er svo auðvelt að segja já við hinu. Það er út af því að í einhverjum tilfellum getur maður reynt að meta áhrif tiltekinna ákvarðana staðbundið. Ef ég lít til dæmis á bílastæðagjöld í miðbæ Reykjavíkur finnst mér allt í lagi að skoða þá hugmynd eina og sér, sem leið til að hleypa fólki inn að takmarkaðri auðlind, leið til að borga fyrir uppbyggingu bílastæða, algerlega óháð því hvort við höfum háa eða lága skatta á bensíni. Þannig vilja menn oft skoða þetta, segja bara: Já, allt í lagi, ég er tilbúinn að fara í veggjöld að því gefnu að við lækkum bensíngjaldið á móti. Ég er eiginlega ekki þar. Það er stundum auðveldara að skoða áhrif hverrar ákvörðunar fyrir sig en að þurfa alltaf að rífa allt kerfið upp með rótum og komast ekki að neinni niðurstöðu fyrr en við finnum þá leið sem þykir heildrænt best.

Til þess að vera frumlegur í svörum en líka einlægur langar mig að segja: Nei, þótt heildræn stefnumótun geti verið góð hef ég ekki endilega þá skoðun að við megum ekki hreyfa okkur eitt né neitt án þess að þannig skoðun fari fram heldur sé stundum nóg að geta metið gæði hverrar hugmyndir fyrir sig, einnar og sér, án samanburðar við aðrar hugmyndir.